Brotið gegn lögum án afleiðinga

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Kyndilberi jafnréttisbaráttunnar var Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra nefnd af ríkislögmanni í dómsal í dag. Var þar tekið fyrir skaðabótamál sem að grunni er sprottið upp úr úrskurði kærunefndar jafnréttismála, en í honum er Jóhanna sögð hafa gerst brotleg við jafnréttislög.

Greint var ítarlega frá aðalmeðferð í málinu á mbl.is fyrr í dag, og verður að mestu leyti látið þar við sitja. Þó er eitt og annað sem fram kom við aðalmeðferðina sem taka má til hliðar og skoða örlítið betur.

Að því sögðu er best að byrja á byrjuninni, eða þannig. Í nóvember 2007 flutti þáverandi velferðarráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, framsöguræðu sína um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Markmið laganna var, og er, að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

Ekkert nema gott er um frumvarpið að segja, enda það í heild ekki til umfjöllunar. Hins vegar er það sú breyting sem lögð var til og samþykkt, að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála yrðu bindandi sem skoða þarf nánar, ekki síst út frá málinu tekist var um í dag.

Bindandi eftir að frestur rann út

„Úrskurðir kærunefndar eru bindandi gagnvart málsaðilum. Málsaðilum er heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla.“ Þannig hljómar ákvæði laganna. Þó er hægt að fara fram á frestun réttaráhrifa, það að úrskurðurinn sé bindandi, en sú kvöð er á, að frestunin er bundin því skilyrði að málið sé borið undir dómstóla innan þrjátíu daga. Frestunin fellur úr gildi ef málið er ekki borið undir dómstóla innan þess tímafrests. Og er úrskurðurinn þá bindandi.

Í umræddu máli liggur fyrir að ríkislögmaður fór fram á frest. Hins vegar var málið ekki borið undir dómstóla. Fresturinn rann út, og samkvæmt lögunum hafði það í för með sér að úrskurðurinn varð bindandi.

Málið sem er fyrir dómstólum snýr heldur ekkert að því að fella umræddan úrskurð úr gildi. Það byggir á því að úrskurðurinn sé bindandi og þar sem um brot á jafnréttislögum sé að ræða eigi viðkomandi, sem brotið var á, rétt á skaðabótum. Er þetta byggt á 31. grein laganna, en þar segir: „Sá sem af ásettu ráði eða vanrækslu brýtur gegn lögum þessum er skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum. Enn fremur má dæma hlutaðeigandi til að greiða þeim sem misgert er við, auk bóta fyrir fjártjón ef því er að skipta, bætur vegna miska.“

Fátt um svör

Úrskurðarorð kærunefndarinnar eru á þá leið að forsætisráðherra hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hins vegar er í engu getið í úrskurðinum hvaða þýðingu það kunni að hafa í för með sér. Ekkert um það hvaða viðurlög liggja við umræddu broti ráðherra eða hvernig hann ætti að bregðast við. Ekkert um afleiðingar þess að brjóta jafnréttislög. En það er ljóst að úrskurðurinn er bindandi.

Oft er það svo að hægt er að leita í greinargerðir með frumvörpum að svörum við umræddum spurningum en þar er fátt um svör. Þegar um álit kærunefndar var að ræða var það Jafnréttisstofu að fylgja þeim eftir fyrir dómstólum, þegar þannig stóð á. Í frumvarpinu var hins vegar lagt til að Jafnréttisstofa fengi það hlutverk að fylgja því eftir að þeir aðilar sem úrskurðir kærunefndar jafnréttismála beinast að fari að niðurstöðum nefndarinnar, eftir því sem við getur átt.

Þá segir að gert sé ráð fyrir að Jafnréttisstofa fylgi eftir úrskurðum að beiðni kærenda, og það falli í hlut kæranda að láta Jafnréttisstofu vita þegar ekki er farið að niðurstöðum nefndarinnar. „Mun Jafnréttisstofa þá eftir því sem við á beina fyrirmælum um viðunandi úrbætur í samræmi við niðurstöðu kærunefndarinnar innan hæfilegs frests til þess aðila sem úrskurðurinn beinist að. Verði ekki farið að fyrirmælum Jafnréttisstofu getur stofan ákveðið að sá aðili sem úrskurður beinist að greiði dagsektir þar til farið verður að fyrirmælunum,“ segir í greinargerðinni.

Sættir gegn sannfæringu

Eins og komið hefur fram var forsætisráðuneytið, og þar með ráðherra, ósammála niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála. Ráðherra skipaði sérstakan stýrihóp til að fara yfir niðurstöðuna og ákvað eftir að hann skilaði áliti sínu að bjóða sættir í málinu. Ríkislögmaður sagði hins vegar við aðalmeðferðina í morgun, að það hefði verið gegn sannfæringu ráðherrans sem hafi verið fullviss um kynferði hafi ekki ráðið för við skipun í stöðuna.

Ríkislögmaður lagði einnig áherslu á það í málflutningi sínum að dómstóllinn væri ekki bundinn af niðurstöðu kærunefndarinnar, og að honum bæri einnig að leysa úr því hvort skipunin hafi verið réttmæt og ef ekki hvern hefði þá átt að skipa í starfið.

Í þessu sambandi var minnst á að kærunefndin hafi farið rangt með ýmis atriði, m.a. varðandi menntun þess sem skipaður var. Varla væri hægt að byggja á röngum úrskurði, þó bindandi sé samkvæmt lögum.

Jafnframt minntist ríkislögmaður á, að þó svo minnst væri á skaðabætur sem viðurlög sé þar aðeins um heimild að ræða en ekki skyldu.

Dómafordæmi liggja ekki fyrir

Eins og bent var á í þinghaldinu í morgun þá er ágreiningsefnið helst hvort úrskurður kærunefndarinnar sé bindandi, eins og segir í lögum um jafna stöðu kvenna og karla. Fjögur ár eru frá því sú breyting kom inn í lög og því liggja ekki fyrir dómafordæmi um þetta efni.

Að því leyti má kannski segja að umrætt skaðabótamál sé jafnvel aukaatriði í málinu. Fremur sé þetta spurning um hvernig lög Jóhönnu Sigurðardóttur um jafna stöðu kvenna og karla virka í raun og veru, og hvort gera þurfi breytingar á þeim til þess að þau nái tilgangi sínum.

Stjórnarráðshúsið.
Stjórnarráðshúsið. Jim Smart
Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert