Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) heldur aðalfund sinn í dag. Athygli vekur að fundurinn er með öllu pappírslaus utan þess sem að öllum félagsmönnum hafði verið sent boðunarbréf í pósti.
Formaður félagsins, Elsa B. Friðfinnsdóttir, setti fundinn í morgun en í máli hennar kom fram að starfsánægja hjúkrunarfræðinga mælist mjög mikil hér á landi. Hefur ánægjan ef eitthvað er aukist fremur en hitt undanfarið. Þá mælist atvinnuleysi þeirra á meðal innan við 1% og hefur ársverkum fjölgað um 3,8% frá fyrsta fjórðungi 2007 til fyrsta ársfjórðungs 2011.
Hafa hjúkrunarfræðingar áhyggjur af gæðum þjónustunnar sem og öryggi sjúklinga
í kjölfar niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu og breytinga á samsetningu mannafla en áhyggjuefni er að áhrif slíkra aðgerða verða almennt ekki ljós fyrr en þó nokkru eftir að ráðist er í þær.
Að aðalfundinum loknum fer fram málþing um ímynd, áhrif og kjör stéttarinnar.