Skipulögð aðför að framboðinu

Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi segir að skipulögð aðför sé gerð að framboði hans, en í ljós hafi komið að einn og sami einstaklingurinn falsaði allar undirskriftirnar sem reyndust falsaðar á meðmælendalistum fyrir framboð hans. Óprúttnir aðilar hafa reynt að narra hann í heimsóknir í fyrirtæki.

„Þetta er bara ráðgáta, virkilega alvarlegt mál,“ segir Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi, um falsanirnar á undirskriftunum á meðmælendalistum hans. „Þetta þarf að afhjúpa.“ 

Hann segir að engar sannanir liggi þó fyrir að undirskrifirnar séu falsaðar, hugsanlega hafi einhverjir skrifað undir sem vilji ekki kannast við það, einhverra hluta vegna. „Það er mér vitanlega ekki búið að rannsaka þetta mál,“ segir Ástþór.

„En það er einn ljós punktur í þessu; ef mitt framboð hefur orðið til þess að benda á brotalamirnar í kosningakerfinu, þá er það sigur fyrir Lýðræðishreyfinguna sem vinnur að lýðræðisumbótum.“

Sami maðurinn safnaði fölsuðu undirskriftunum

Ástþór segir að hann hafi sett inn „öryggisventil“ á meðmælendalista sína, sem felst í því að á þeim kemur fram hver safnaði undirskriftunum. Að sögn Ástþórs var það sami aðilinn sem safnaði öllum „fölsuðu“ undirskriftunum. 

„Það kom fyrst upp grunur varðandi þennan mann í Reykjavík. Hann fór hringinn í kringum landið og við vitum hvert hann fór því við greiddum fyrir hann gistingu og ferðakostnað. Það eru ekki öll nöfnin sem hann safnaði fölsuð, en hluti þeirra.“

Ástþór segist hafa sent yfirkjörstjórnum skönnuð eintök af meðmælendalistunum fyrir 6-7 vikum og hafi síðan afhent þá í innanríkisráðuneytið skömmu síðar. „Þeir liggja með þetta í margar vikur og skoða þetta ekki fyrr enn rétt áður en fresturinn rennur út, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir frá mér um að það yrði unnið tafarlaust í listunum og skorið úr um hvort þeir væru í lagi. Það hefði átt að skoða listana miklu fyrr.“

„Mér fannst mjög óeðlilegt að það væri hafin utankjörfundarkosning á meðan framboðið mitt var ekki lýst löglegt og alvöru. Það hefur verið rekinn áróður fyrir því að þetta sé ekki alvöru framboð. Það setur þetta framboð strax í neikvætt ljós, sem dregur fram alls konar fólk sem vill spilla fyrir framboðinu.“

Enginn kannaðist við neitt

Ástþór segir að fleiri dæmi séu um að reynt hafi verið að spilla fyrir framboðinu.

„Ég setti inn á netið boð um að við hjónin myndum heimsækja fyrirtæki og kynna framboðið. Vel á annað hundrað beiðnir bárust okkur frá ýmsum fyrirtækjum, en stór hluti þess er svindl. Það hefur komist upp þegar við höfum hringt og viljað staðfesta heimsóknina og þá kannast enginn við neitt. Þetta eru skipulagðar árásir.“

Ástþór segist ekki vita hverjir séu þarna að verki. „Ég skil ekki af hverju, kannski er þetta fíflaskapur. En ég stend bara hérna og klóra mér í hausnum. Ég skil þetta ekki. Þetta er mjög alvarlegt, það er ekki bara verið að valda mér bæði fjárhags- og tímatjóni, heldur er líka verið að spila með lýðræðið. Og það er þjóðin sem ber skaðann af því. Annars skiptir það engu  máli í þessu sambandi hvort ég er talinn eiga vinningslíkur eða ekki, framboðið á fullan rétt á sér.“

Fagmannlega að verki staðið

Hann segist gera ráð fyrir að innanríkisráðuneytið kanni nánar hvernig staðið var að fölsun undirskriftanna á meðmælendalistunum. „Ég er brotaþolinn og mitt framboð. Það er yfirvaldsins eða ráðuneytisins að ganga eftir því að rannsaka þetta.“

Ástþór segist vera búinn að safna undirskriftum í staðinn fyrir þær fölsuðu að hluta til, en  tíminn sé naumur. „Ef ég fæ að vita rétt fyrir lokun að það vanti einhverjar undirskriftir úti á landi, þá get ég ekki safnað því einn tveir og þrír.“

Að sögn Ástþórs var fagmannlega að verki staðið við fölsun undirskrifanna og hann nefnir dæmi um að fölsuð undirskrift gamals manns hafi verið skrifuð með titrandi hendi. „Þetta er skipulögð aðför, ekkert annað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert