Björgunarsveitir af Suðurlandi hafa verið kallaðar út vegna slyss í Dyrhólaey. Fjórir erlendir ferðamenn féllu niður þegar brún efst á eyjunni gaf sig undan fótum þeirra. Einn þeirra lenti í sjónum en hinir í fjörunni fyrir neðan.
Mikið lið var kallað út þegar tilkynning barst, björgunarsveitir af Suðurlandi, björgunarskip frá Vestmannaeyjum, fjallabjörgunarfólk af höfuðborgarsvæðinu og þyrla LHG.
Nokkuð af liðinu var snúið til baka þegar nánari fregnir bárust. Björgunarsveitin Víkverji og sjúkralið eru nú á slysstað. Einn ferðalangurinn er fótbrotinn en aðrir minna slasaðir.
Sá sem fótbrotnaði lenti í klettum þar sem erfitt er að komast að honum. Síga þarf niður að honum og slaka út í björgunarskip eða hífa hann upp á brúnina. Umfangsmiklar björgunaraðgerðir eru því framundan við eyna.