Spurning um ESB á öðrum kjörseðli

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. Hreyfingin ætar að greiða atkvæða gegn …
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. Hreyfingin ætar að greiða atkvæða gegn tillögu Vigdísar. mbl.is/Ómar

Landskjörstjórn telur ekkert því til fyrirstöðu að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda eigi áfram viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnalagaráðs. Atkvæðagreiðslan um ESB verði hins vegar að vera á öðrum kjörseðli.

Í dag fer fram atkvæðagreiðsla um tillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs. Ein af þeim breytingartillögum sem lagðar hafa verið fram við tillöguna er að borið verði jafnframt undir þjóðina hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við ESB.

Þingmenn Hreyfingarinnar sendu í gær frá sér yfirlýsingu um að þeir gætu ekki stutt tillögu Vigdísar Hauksdóttur alþingismanns um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda eigi áfram viðræðum við ESB.

Í yfirlýsingunni er bent á umsögn Landskjörstjórnar um tillöguna. „Í umsögninni kemur fram að spurningin sem Vigdís leggur til að borin verði upp feli í sér óskylt málefni og að það sé í ósamræmi við lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.  Við getum því ekki stutt umrædda tillögu Vigdísar.

Það er hins vegar Alþingis að ákveða hvort fram eigi að fara sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla um þessa spurningu.  Burt séð frá persónulegri afstöðu okkar til þess, er það okkar skoðun að talsmenn aukins beins lýðræðis geti ekki sett sig upp á móti slíkri tillögu.

Freyr Ófeigsson, formaður landskjörstjórnar, sagði í samtali við mbl.is að samkvæmt lögum frá árinu 2010 um þjóðaratkvæðagreiðslur væri talað um að fram skuli fara almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um „tiltekið málefni eða lagafrumvarp“. Hann segir landskjörstjórn túlka þetta á þann veg að gert sé ráð fyrir því að á sama kjörseðli sé spurt um eitt tiltekið málefni. Ekkert sé hins vegar því til fyrirstöðu að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um viðræðum við ESB samhliða atkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs ef spurningin um ESB sé á sérstökum kjörseðli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert