Tæplega þrjú þúsund vilja kosningar

mbl.is/Hjörtur

Óhætt er að segja að hratt hafi bæst við undirskriftir á vefsíðunni www.kjosendur.is í kvöld þar sem þess er krafist að þing verði rofið og boðað til kosninga en nú hafa tæplega þrjú þúsund undirskriftir safnast samkvæmt því sem þar kemur fram.

Um klukkan 17:30 í dag þegar mbl.is sagði fyrst frá málinu höfðu innan við 30 skráð sig samkvæmt vefsíðunni en rétt fyrir klukkan tíu í kvöld voru undirskriftirnar orðnar eitt þúsund. Nú rúmlega tveimur klukkutímum síðar eru þær hins vegar sem fyrr segir orðnar um þrjú þúsund samkvæmt vefsíðunni.

Í yfirlýsingu sem birt er á vefsíðunni segir: „Við undirrituð lýsum yfir vantrausti á ríkisstjórn Íslands. Við krefjumst þess að þing verði rofið og boðað verði til alþingiskosninga í samræmi við gildandi stjórnarskrá.

Í samræmi við ákvæði stjórnarskrár skorum við á forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, að ganga til fundar við forseta Íslands og biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt eigi síðar en tveimur vikum eftir afhendingu þessarar áskorunar.

Verði forsætisráðherra ekki við áskorun okkar um að biðjast lausnar skorum við á forseta Íslands að rjúfa þing og boða til kosninga í samræmi við 24. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert