Óvanaleg sjón blasti við íbúum Súðavíkur í morgun, en þá hafði einn íbúi bæjarins brugðið á það ráð að flagga fána Landsbankans öfugt, og í hálfa stöng.
Eins og flestir vita tíðkast að flagga þjóðfánanum í hálfa stöng við andlátsfregn – en í gær ákvað Landsbankinn að loka útibúi sínu í Súðavík, líkt og í Króksfjarðarnesi, á Flateyri og á Bíldudal, segir í frétt Bæjarins besta.
„Þetta eru ömurleg skilaboð ofan í allt það sem stjórnvöld hafa sent okkur til þessa. Þetta setur lítil samfélög í uppnám, því hvert einasta starf skiptir miklu máli,“ segir Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, um lokun útibús Landsbankans í Súðavík.
„Það er hreint út sagt ótrúlegt að Landsbanki allra landsmanna, sem er að stærstum hluta í eigu ríkissjóðs, skuli senda þessi skilaboð út á landsbyggðina. Það er ekki langt síðan bankinn var með sterkar yfirlýsingar og mikil áform um að efla tengslin við jaðarbyggðirnar. Þetta er eins og köld vatnsgusa í andlitið,“ segir Ómar Már, í samtali við BB.