Kærði undirskriftafölsun

Daníel Guðjónsson yfirlögregluþjónn sést hér lengst til vinstri en við …
Daníel Guðjónsson yfirlögregluþjónn sést hér lengst til vinstri en við hlið hans standa Björn Jósef Arnviðarson og Ólafur Ásgeirsson. Kristján Kristjánsson

„Manni líður ekki vel með það. Þetta er leiðinleg tilfinning og mér finnst ástæðulaust að sitja undir því og ætla ekki að gera það, þess vegna kærði ég þetta til að fara fram á rannsókn á því,“ segir Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri, í samtali við blaðamann mbl.is en Daníel er á meðal þeirra einstaklinga sem settir voru á meðmælendalista Ástþórs Magnússonar að sér forspurðum. Eins og Ríkisútvarpið greindi frá fyrr í dag þá hefur Daníel kært málið.

Að sögn Daníels var nafn hans skráð á tveimur meðmælendalistum hjá Ástþóri. „Báðum listunum var safnað af saman manninum og undirskrift mín var fölsuð á báða þessa lista,“ segir Daníel. Hann segist ekki kannast við manninn sem safnaði listunum og tekur jafnframt fram að hann hafi aldrei verið beðinn um að skrifa undir meðmælendalista fyrir Ástþór Magnússon.

„Ég gerði það í gær,“ segir Daníel aðspurður hvort hann sé búinn að kæra málið til sýslumanns. Að sögn Daníels fékk hann að vita að hann væri skráður á þessa meðmælendalista á miðvikudagskvöldið þegar starfsmaður yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis hafði samband við hann og spurði hann hvernig á því stæði að nafn hans væri tvískráð á meðmælendalista hjá Ástþóri. „Ég fór síðan í gærmorgun og fékk að sjá nafnið mitt á þessum listum og þá sá ég að það var klárlega falsað, eins og ég vissi náttúrlega,“ segir Daníel.

Aðspurður hvort hann viti um einhverja fleiri sem skráðir voru á sömu lista að þeim forspurðum segir Daníel: „Já, allavega á þessum sama lista og ég var á þá sá ég nöfn sem ég veit að höfðu ekki skrifað sig þar. Ég geri ráð fyrir að langfæstir sem af þeim sem voru á þeim blöðum, hafi gert það sjálfviljugir.“

Ástþór Magnússon, forsetaframbjóðandi.
Ástþór Magnússon, forsetaframbjóðandi. mbl.is/Jim Smart
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert