Kirkjugarðar geta ekki starfað áfram nema einingarverðið á hvern grafreit verði uppfært eins og það á að vera án allrar skerðingar,“ segir Þórsteinn Ragnarsson, formaður Kirkjugarðasambands Íslands (KGSÍ) og forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.
Á aðalfundi KGSÍ sem fór fram 12. maí sl. var lýst yfir áhyggjum af minnkandi framlagi ríkisins til kirkjugarðanna. Kostnaður við greftranir er nú meiri en þær tekjur sem koma frá ríkissjóði. Kirkjugarðarnir eru fjársveltir og er framlagið til þeirra vel undir meðalframlagi til annarra opinberra stofnana innan innanríkisráðuneytisins.
Á árinu 2005 tók gildi nýtt samkomulag milli kirkjugarða landsins og ríkisins um hvernig staðið yrði að framlagi ríkisins til kirkjugarðanna. Tekið var upp nýtt fyrirkomulag sem gerði ráð fyrir einingaverði, annars vegar var einingaverð fyrir umhirðu á fermetra og hins vegar fyrir hverja gröf sem tekin var, bæði kistugrafir og duftgrafir.
Miklar skerðingar voru gerðar á einingaverðinu á árunum 2008 og 2009 og hefur það ekkert hækkað, en byggingavísitalan hefur aftur á móti hækkað um 30% á sama tímabili.
,,Kirkjugarðar Reykjavíkurpófastdæma skiluðu halla á rekstri sínum í fyrsta skipti á síðasta ári, en undir þá fellur yfir helmingur af kirkjugörðum landsins þ.ám. Fossvogskirkjugarður og Gufuneskirkjugarður. Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma hafa verið með svipuðu sniði allt frá 1932 og hafa því verið starfræktir í 80 ár án halla,“ segir Þórsteinn og bætir við að það stefni einnig í mikinn halla fyrir árið 2012.
,,Við höfum skorið niður á öllum sviðum kirkjugarðanna. Sem dæmi eru sumarstarfsmenn einungis um 130 í dag en voru áður vel yfir 200,“ segir Þórsteinn. Þá hefur ekki verið ráðið í þær stöður sem menn hafa hætt í, meðalaldur vinnuvéla í garðinum er orðinn vel yfir 10 ár og endurnýjunarþörf er orðin mjög mikil bæði á vélunum sem og húsnæði kirkjugarðanna. ,,Viðhaldsþörf tækja og fasteigna er farin að segja til sín og það verður að gera eitthvað í þessu,“ segir Þórsteinn.
Kirkjugarðar úti á landi eru að lenda í sömu stöðu. ,,Þau geta ekki greitt verktökum fyrir graftökuna með tekjunum frá ríkinu, því þær eru mun lægri en það sem verktakinn óskar eftir að fá,“ segir Þórsteinn. Þar spilar inn í hækkun olíugjalda og aðrar hækkanir, án hækkana á einingaverði til kirkjugarðanna.
Fjárlaganefnd afgreiddi ekki frumvarp til breytinga á lögum um kirkjugarða á þeim forsendum að kirkjugarðarnir ættu næga peninga. Þar er vitnað til lífeyrisskuldbindinga sem kirkjugarðarnir geyma en eru ekki að nokkru leyti ætlaðir til notkunar í rekstri kirkjugarðanna. ,,Þau segja að þetta sé sjóðsinneign sem er rangfærsla. Það ber að aðgreina þetta enda er okkur ekki heimilt að nota þessa peninga til reksturs,“ segir Þórsteinn. Því verður að setja þessa peninga til hliðar þegar skoðuð er fjárhagsstaða kirkjugarða landsins. ,,Fólk verður að vita hvernig staðan er í raun og veru hjá kirkjugörðunum,“ segir Þórsteinn.