„Þetta er niðurdrepandi, á tíma sem á að vera skemmtilegasti tími ársins í sveitinni,“ segir Sigurður Bjarni Sigurðsson, sauðfjárbóndi á Brautarhóli í Svarfaðardal. Hann hefur misst á annað hundrað lömb í vor vegna bogfrymlasóttar sem berst með villiköttum í fóður.
Fleiri bændur í Svarfaðardal og víðar hafa orðið fyrir tjóni. Dýralæknir og bændur hvetja til þess að villiköttum verði fækkað, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir Norðausturumdæmis, staðfestir að talsvert hafi borið á kattasóttinni í vor, mest þó í Svarfaðardal. Tekið hefur verið sýni á einum bæ og ræktað og með því var umrædd sótt staðfest. Bogfrymill er einfrumungur sem í flestum tilvikum smitast í fé með villiköttum sem leita skjóls í fjárhúsum og skíta í heyið. Talið er að kettirnir smitist af fuglum eða nagdýrum.
Bogfrymlasóttin veldur fósturláti þannig að ærnar bera dauðum lömbum en stundum kemur annað lambið dautt en hitt lélegt. Ólafur segir að ef bændum takist að láta lömbin lifa í tvo daga komist þau oft á legg.