„Þetta leggst bara mjög vel í mig,“ segir Geir H. Haarde í samtali við mbl.is aðspurður um nýjan starfsvettvang. Tilkynnt var í dag að Geir hefði gengið til liðs við OPUS lögmenn í Austurstræti þar sem hann mun starfa sem ráðgjafi í alþjóðlegum verkefnum.
„Hér á þessari stofu vinnur hópur af duglegum lögfræðingum sem ég hlakka til að vinna með. Þeir hafa í vaxandi mæli verið að sinna ákveðnum alþjóðlegum verkefnum og ætla að færa út kvíarnar á því sviði. Telja þeir að mín reynsla geti nýst þeim, og það vona ég líka, þannig að allir hafi hag af.“
OPUS lögmenn hófu starfsemi árið 2006 og hjá stofunni starfa nú fimmtán manns, þar af tólf lögmenn. Sinnir stofan alhliða lögfræðiþjónustu fyrir einstaklinga jafnt sem fyrirtæki og stofnanir.
„Þetta er spennandi og ákveðin eftirvænting sem fylgir. Það er alltaf gott að fá ný viðfangsefni,“sagði Geir.