Rætt um að kaupa notaðar þyrlur

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF LÍF
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF LÍF Af vef Landhelgisgæslunnar

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti í ríkisstjórn í morgun hugmyndir um að kaupa tvær notaðar björgunarþyrlur sambærilegum þeim sem Landhelgisgæslan er nú með í notkun. Þessi kostur er ódýrari en að kaupa nýjar þyrlur.

Stjórnvöld gerðu árið 2007 samstarfssamning við Norðmenn um kaup á björgunarþyrlum. Gert var ráð fyrir því að keyptar yrðu þrjár þyrlur sem kæmu í notkun hjá Landhelgisgæslunni eftir 2018. Á árinu 2011 lýsti Ísland því yfir að gert yrði ráð fyrir því að ein þyrla yrði keypt og kæmi í notkun 2018 og kaupréttur tryggður á tveimur þyrlum til viðbótar. Samstarfið gerir ráð fyrir útboði á þessu ári. Miðað hefur verið við það að fyrsta útborgun vegna kaupa á nýrri þyrlu yrði á árinu 2013 eða rúmur einn milljarður króna en þyrlan síðan greidd að fullu við afhendingu 2018. Áætlað hefur verið að nýjar þyrlur gætu kostnað frá um 5 milljörðum króna.

Nú er hins vegar rætt um að endurmeta samstarfið við Norðmenn í þyrlumálum.

Þyrluflugfloti Landhelgisgæslunnar samanstendur í dag af þremur þyrlum þ.e. TF-LÍF sem er í eigu ríkisins, TF-GNÁ sem er í langtímaleigu til ársins 2014 og TF-SÝN sem er á skammtímaleigu fram á mitt næsta ár 2013. TF-LÍF er nýkomin úr umfangsmikilli skoðun sem tryggir rekstur hennar til nokkurra ára. Þrjár björgunarþyrlur tryggja björgunargetu út fyrir 20 sjómílur frá ströndinni í 11 mánuði ársins (92%) og er einungis unnt að tryggja björgunargetu allt árið (100%) þegar tiltækar eru fjórar björgunarþyrlur.

Ríkisstjórnin afgreiddi ekki málið á fundi sínum í morgun þar sem fjármálaráðherra var ekki á fundinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka