„Það er alveg ljóst mál að þetta kosningaplagg ríkisstjórnarinnar sem kallað hefur verið framkvæmdaáætlun er byggð á þeirri forsendu að gengi íslensku krónunnar haldist álíka veikt og það er í dag,“ segir Einar Kr. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is um fjárfestinga- og atvinnuáætlun fyrir árin 2013-2015 sem ríkisstjórnarflokkarnir kynntu nýverið.
Einar bendir á að ætlunin sé að fjármagna þær framkvæmdir sem fara eigi í samkvæmt áætluninni með tekjum af veiðigjaldi en það sé eðli málsins samkvæmt mjög næmt fyrir breytingum á gengi íslensku krónunnar. Í áætluninni sé gert ráð fyrir að tekjur af veiðigjaldinu á þremur árum muni nema um 50 milljörðum króna og því greinilega gert ráð fyrir því að gengi krónunnar haldist veikt og tekjur sjávarútvegarins verði sem því nemur hærri.
„Það gengur engan veginn upp“
„Alþýðusamband Íslands hefur hins vegar skoðað málið og komist að þeirri niðurstöðu að ef gengi íslensku krónunnar styrkist um 20%, sem er þó mun minna en gert var ráð fyrir í forsendum kjarasamninga, þá muni tekjur af veiðigjaldinu fara úr því að vera í kringum 20-24 milljarðar á ári niður í 8-9 milljarða. Í ljósi þess að í áætlun stjórnvalda er gert ráð fyrir að tæplega 6 milljarðar króna af veiðigjaldinu eigi að renna í þessi áform þá blasir það við að veiðigjald sem ekki skilar þeim upphæðum sem gert er ráð fyrir í dag miðað við þetta lága gengi að það gengur engan veginn upp,“ segir Einar.
Hann segir að það sé augljóst af þessu að dæma að framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar sé sú að gengi krónunnar verði á svipuðu róli eins og staðan er í dag sem aftur hefði til að mynda áhrif á kaupmátt þjóðarinnar til lengri tíma.
„Það kemur mér á óvart að ríkisstjórnin skuli hafa þá framtíðarsýn að á næstu þremur árum og í fyrirsjáanlegri framtíð verði gengi krónunnar lágt. Ég hefði talið að hún hefði þá sýn að gengi krónunnar ætti eftir að styrkjast á næstu árum en af þessum sést að svo er ekki. Ríkisstjórnin hefur með öðrum orðum gefist upp við það að skapa þær efnahagslegu forsendur sem lagt geti grunninn að styrkingu íslensku krónunnar,“ segir Einar.
Sagði áætlunina vera varfærna
Einar vakti máls á þessu í umræðum á Alþingi í dag og beindi fyrirspurn um það til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem svaraði með því að leggja áherslu á að framkvæmdaáætlunin væri mjög varfærin og gagnrýndi hún Einar fyrir að reyna að gera áætlunina tortryggilega. Sagði hún ríkisstjórnina bjartsýna á að áætlunin kæmi til framkvæmda og stæði undir væntingum ráðamanna.
„Eins og ég sagði er þetta mjög varfærið bæði í veiðigjaldinu og í arðinum af bönkunumog við verðum að horfa til þess líka hvaða hagtölur eru á bak við þetta og hvernig við byggjum þetta upp þar sem við gerum ráð fyrir því til dæmis að ná hagvextinum upp í 19% sem hefur þó hækkað á tveimur árum um 3–4% sem er verulegt og hlýtur að vera fagnaðarefni. Við búum því miður við sveiflur í genginu en ég tel að áætluninsé það varfærin að það sé alveg óhætt að treysta því að við getum framkvæmt þessa fjárfestingaráætlun,“ sagði Jóhanna.