Þjófar í gæsluvarðhald

mbl.is/Júlíus

Tveir karlar á þrítugsaldri hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 1. júní að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og var það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Mennirnir voru handteknir í gærmorgun eftir að þeir höfðu brotist inn í hús í Grafarvogi en þýfi fannst í fórum þeirra.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að þjófarnir séu grunaðir um innbrot í fleiri hús á höfuðborgarsvæðinu. Þriðji maðurinn hafi verið handtekinn í tengslum við rannsóknina en ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir honum.

Árvökull íbúi lét vita um grunsamlegar mannaferðir

Lögreglan segir að þess beri að geta að að handtöku þjófanna megi þakka árverkni ónefnds íbúa sem lét lögregluna vita um grunsamlegar mannaferðir.

„Þetta undirstrikar að það sem einhverjum kann að finnast lítilfjörlegar upplýsingar getur einmitt orðið til þess að upplýsa mál. Hér er m.a. átt við lýsingu á mönnum og bifreiðum en gott er að skrifa slíkt hjá sér ef fólk tekur eftir einhverju óvenjulegu í sínu nánasta umhverfi. Sama gildir um bílnúmer en slíkar upplýsingar geta komið lögreglu á sporið. Innbrotsþjófar fylgjast gjarnan með húsum áður en þeir láta til skarar skríða og því er mikilvægt að hafa þessi atriði í huga. Munið að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessi tagi en einu sinni of sjaldan.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka