Evróvisjón með viðbættu tísti

Svona mun skjárinn líta út hjá þeim sem eru með …
Svona mun skjárinn líta út hjá þeim sem eru með myndlykil frá Vodafone og stilla á rás 996 í kvöld. Vodafone

Þeir Evróvisjónáhorfendur sem vilja sjá skoðanir annarra Íslendinga á frammistöðu keppenda geta í kvöld stillt á sérstaka sjónvarpsrás, þar sem tíst-straumur birtist með útsendingu Ríkisútvarpsins.  

Ísland er annað landið í Evrópu þar sem þessi tækni er tekin í gagnið.

Í forkeppninni á þriðjudag tístu Íslendingar oftar en 1.500 sinnum með merkinu #12stig og voru mjög líflegar umræður um frammistöðu flytjenda. Vodafone ákvað í kjölfarið að taka tíst Íslendinga á úrslitakvöldinu, sem er í kvöld, og senda það út á sérstakri sjónvarpsrás með útsendingunni þannig að fólk sem ekki notar Twitter geti líka fylgst með því hvernig íslenskir áhorfendur bregðast við ólíkum flytjendum og uppákomum í keppninni.

Útsendingin með tíst-straumnum verður á rás 996 hjá þeim sem eru með Vodafone-myndlykil, að sögn Hrannars Péturssonar, upplýsingafulltrúa Vodafone, sem sjálfur hyggst leggja orð í belg á tístinu. Einungis þeir, sem eru með myndlykla frá Vodafone, geta séð tístið.

Hrannar segir mikla stemningu hafa myndast á þriðjudaginn og á von á því að hún verði ekki síðri í kvöld. „Við erum spennt að sjá viðtökurnar sem þetta fær og aldrei að vita nema við notum þennan möguleika við aðrar útsendingar í framtíðinni. Þetta bætir nýrri vídd í útsendinguna.“

Tekið er fram að allt það tíst sem berst er yfirfarið áður en það fer á skjáinn til þess að gæta almenns velsæmis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert