Finnar áforma að taka að sér loftrýmisgæslu á Íslandi í þrjár vikur árið 2015 og senda hingað til lands í því skyni fjórar F-18 Hornet-orrustuþotur og 50 manna starfslið. Þoturnar verða sendar hingað til lands í tengslum við norrænt samstarf um loftrýmisgæslu við Ísland en um verður að ræða stærsta norræna varnarsamstarfið til þessa. Gert er ráð fyrir að orrustuþoturnar fljúgi um 100 flugtíma á meðan þær verði staðsettar hér á landi.
Fram kemur á fréttavef finnska dagblaðsins Helsingin Sanomat í dag að finnska varnarmálaráðuneytið áætli að heildarkostnaður vegna loftrýmisgæslu finnsku orrustuþotnanna verði um ein milljón evra eða um 163 milljónir íslenskra króna, og af því fari um 700 þúsund evrur í eldsneytiskostnað og launakostnað flugmanna.
Grunsemdir um nálgun við NATO
Þá segir að athygli hafi verið vakin á áformunum, sem unnið hefði verið að á bak við tjöldin, þegar Helsingin Sanomat sagði frá því fyrir tveimur vikum að rætt hefði verið um þau í utanríkis- og öryggisstefnunefnd Finnlands en grunsemdir vöknuðu um að verið væri að færa landið nær Atlantshafsbandalaginu (NATO), sem Finnar eru ekki aðilar að, og að fyrirætlanirnar gætu haft neikvæð áhrif á varnir Finnlands sjálfs.
Hins vegar er haft eftir Janne Kuusela, embættismanni í finnska varnarmálaráðuneytinu, að verkefnið veiti Finnlandi tækifæri til þess að draga upp jákvæða mynd af sér og sýna fram á að landið búi yfir trúverðugum flugher. Þá fullyrðir hann að verkefnið muni ekki hafa áhrif á getu finnska flughersins til þess að verja Finnland.
Þá segir að íslensk stjórnvöld hafi beðið Finnland um stuðning að þessu leyti í tengslum við norrænt samstarf. Danmörk og Noregur séu þegar þátttakendur og Svíar séu að skoða þann möguleika að taka einnig þátt. Finnsk stjórnvöld vonist til þess að endanleg ákvörðun um þátttöku liggi fyrir næsta haust.