Hvítasunnuhelgin fer vel af stað

Umferð á Vesturlandsvegi
Umferð á Vesturlandsvegi Ómar Óskarsson

Hvítasunnuhelgin, fyrsta stóra ferðahelgi sumarsins, hefur farið vel af stað um land allt. Umferð gekk að mestu áfallalaust fyrir sig í gær föstudag að sögn lögreglu og lítið var um að menn væru teknir fyrir að aka of greitt.

Umferð gengið vel fyrir sig

Að sögn lögreglunnar á Selfossi var töluverð umferð um umdæmið seinni part föstudags en gekk afar vel fyrir sig og slysalaust. Reiknað var með að margir yrðu einnig á ferð um svæðið í dag að heimsækja ættingja og vini í uppsveitum Árnessýslu. Þá mun fjöldi hrossa og reiðmanna vera á ferð um Selfoss en búið er að boða til hópreiðar um svæðið í tilefni þess að vígja á nýja reiðhöll, Sleipnishöllina, kl. 15:00 í dag.

Í Borgarnesi hafði lögreglan sömu sögu að segja. Mikil umferð var um umdæmið í gær og gekk óhappalaust fyrir sig. Töluverð umferð hafði einnig verið um svæðið í morgun, laugardag, þegar mbl.is hafði samband um hádegisbilið, en að sögn lögreglu var veður töluvert síðra í gær svo eflaust hafa einhverjir ákveðið að bíða með að leggja af stað.

Hópreið, blúshátíð, vísindaveisla og opið hús hjá listamönnum

Ýmislegt er í boði um landið þótt heldur snemmt sé fyrir bæjarhátíðir af ýmsum toga. Þegar hefur verið minnst á fyrrnefnd hátíðahöld hestamanna á Selfossi. Á Hvolsvelli fer fram blúshátíð í Hvolnum í kvöld en Blúsfélagið Hekla hefur endurvakið Norden Blues Festival, blúshátíðina sem fór undir ösku í eldgosunum 2010. Á Ísafirði fer fram Vísindaveisla í Edinborgarhúsinu um helgina þegar Háskólalestin sækir bæinn heim. Ýmiskonar fróðleikur verður þar í boði  auk þess sem farið verður í leiki og þrautir. Þá verður listamiðstöðin Nes á Skagaströnd með opið hús á morgun, hvítasunnudag, þar sem gestir eru velkomnir en ellefu listamenn hvaðanæva úr heiminum hafa undanfarið dvalið við listamiðstöðina. Hér er aðeins stiklað á stóru en ljóst er að úr ýmsu er að velja fyrir landsmenn þessa hvítasunnuna.

Eflaust leggja þónokkrir leið sína í Grímsnesið um hvítasunnuna.
Eflaust leggja þónokkrir leið sína í Grímsnesið um hvítasunnuna. Súsanna Svavarsdóttir
Hópreið verður á Selfossi í tilefni vígslu nýju reiðhallarinnar.
Hópreið verður á Selfossi í tilefni vígslu nýju reiðhallarinnar. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert