Svíar unnu Evróvisjón 2012

Svíþjóð er sigurvegari Evróvisjón 2012 en sænska framlagið fékk samtals 372 stig og var sigurinn mjög afgerandi. Svíar héldu forystunni nánast allan tímann sem stigagjöfin fór fram.

Það var sænska söngkonan Loreen sem var fulltrúi Svía með lag sitt Euphoria. Þetta er sem kunnugt er ekki í fyrsta sinn sem Svíar sigra í Evróvisjón en þeir hafa unnið keppnina fjórum sinnum áður.

Fyrsta framlag Svía til að sigra var Waterloo með hljómsveitinni ABBA árið 1974. Næst kom að Svíum að verma fyrsta sæti áratug síðar eða 1984 þegar hljómsveitin Herreys sigraði með lag sitt Diggi-Loo Diggi-Ley.

Árið 1991 sigruðu Svíar enn eina ferðina með laginu Fångad av en stormvind í flutningi söngkonunnar Carolu og loks bar Charlotte Nilsson sigur úr býtum í Evróvisjón árið 1999 með laginu Take Me To Your Heaven.

Rússland varð í öðru sæti og Serbar í því þriðja. Í fjórða sæti voru hins vegar gestgjafarnir Aserar.

Hér má sjá sigurlagið í flutningi Loreen

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert