Þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar

Jón Bjarnason alþingismaður
Jón Bjarnason alþingismaður Árni Sæberg

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, segir framgöngu Landsbankans vera eins og stríðsrekstur og að hún gangi þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Jón hefur farið fram á að sérstök umræða fari fram á Alþingi um málið sem fyrst.

„Ég vona að þetta verði rætt sem fyrst eftir helgina, áður en þessar breytingar taka gildi,“ sagði Jón í samtali við mbl.is. „Þessar sjávarbyggðir standa frammi fyrir kröfu á háu veiðigjaldi og þurfa svo að horfa upp á að þessi störf glatist. Þetta hangir allt saman og ég minni á að það er eitt af stefnumálum ríkisstjórnarinnar að efla byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni. Ég tel að þessar aðgerðir gangi þvert á stefnu stjórnarinnar í byggðamálum.

Var ríkisstjórnin annars ekki að funda nýlega á Vestfjörðum til að undirstrika þessa stefnu sína?“ segir Jón.

Skylt að sinna almannahlutverki

Hann segir að stofnun af þessari stærðargráðu, sem sé að hluta til í ríkiseigu, sé skylt að sinna tilteknu almannahlutverki og veltir því upp hvort stjórnvöld ættu að setja fyrirtækjum í eigu ríkisins reglur í þessu sambandi. 

„Stjórnvöld geta að sjálfsögðu sett bankanum reglur í þessu efni  og mér finnst vera ástæða til þess að skoða það,“ segir Jón.

En ber bankanum ekki líka skylda til að leita leiða til hagkvæms rekstrar?

„Jú, að sjálfsögðu ber fyrirtækinu skylda til að vera rekið á hagkvæman hátt,“ segir Jón. „En það hefur líka skyldum að gegna.“

Skyndiárás - tilkynning - lokað

Jón skrifaði um málið á bloggsíðu sína í morgun.

„Einkum eru það sjávarbyggðirnar á Snæfellsnesi, Vestfjörðum og Austfjörðum sem verða fyrir högginu. Sömu byggðir hafa margar mátt sæta stórfelldum niðurskurði í heilbrigðisþjónustu og ýmissi annarri stoðþjónustu á síðustu árum. En þessar byggðir eiga það þó flestar sameiginlegt að liggja að  gullkistu þjóðarinnar, einum fengsælustu fiskimiðum heims,“ skrifar Jón.

„Framganga Landsbankans eins og hún birtist almenningi í gær  er eins og í stríðsrekstri, skyndiárás -  tilkynning – lokað. Sveitarstjórnir- samfélög- fyrirtæki og  starfsfólk standa skyndilega  frammi fyrir stórfelldri skerðingu á grunnþjónustu sinni án nokkurs samráðs eða undangenginna viðræðna.“

Í blogginu segir Jón bankastarfsemi ekki vera til sjálfrar sín vegna, heldur sé um að ræða mikilvæga grunnþjónustu sem þurfi að vera nærri fólki og fyrirtækjum. „Við viljum hafa landið allt í byggð vernda og nýta auðlindir þess og samfélög. En það gerist ekki sjálfkrafa eins og dæmin sanna.“

Bloggsíða Jóns Bjarnasonar

mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka