Ungu Evrópu dreift til ungs fólks

Reuters

„Mikilvægt er að vanmeta ekki þátt ungmenna í þeirri umræðu sem nú stendur yfir um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu,“ segir í fréttatilkynningu frá Ungum Evrópusinnum, sem eru samtök ungs fólks sem er hlynnt aðild að Evrópusambandinu, í tilefni af útgáfu fyrsta tölublaðs málgagns samtakanna sem nefnist Unga Evrópa.

Fram kemur í tilkynningunni að efnistökum blaðsins sé beint að ungu fólki og reynt að svara spurningum sem brenna á því í tengslum við umsókn Íslands um aðild að ESB en blaðinu sé dreift til allra íslenskra ungmenna á aldrinum 18-25 ára.

„Blaðinu er ætlað að vera ungu fólki leiðarvísir til að mynda sér upplýsta skoðun byggða á málefnalegum grundvelli og hlutlægum staðreyndum, en ekki hreinum hræðsluáróðri. Það er mat Ungra Evrópusinna að of lítið aðgengi sé að handhægum, almennum upplýsingum um Evrópumál sem varða málefni Íslands beint. Með Ungu Evrópu er reynt að svara því kalli,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert