Hvítasunnuhelgin virðist almennt ganga vel fyrir sig að sögn lögreglunnar um land allt enda sól og blíða víðast hvar og tíðindalítið ef frá er talið í Búðardal.
Átta bílveltur á tólf dögum - uggvænleg þróun
Í gær varð umferðarslys rétt sunnan við Búðardal þar sem bíll með þremur farþegum valt. Meiðsli þeirra voru sem betur fer minniháttar, en bíllinn gjörónýtur. Er þetta er áttunda slysið í röð á tólf dögum á svæðinu en í öllum tilfellum hefur verið um að ræða útafakstur og bílveltur. Þar af hafnaði bíll í einu tilfelli hátt í 100 metra fyrir utan veg. Í öllum tilvikunum var um meiðsli á farþegum að ræða, þar af alvarleg í þremur þar sem flytja þurfti fullt fólk til Reykjavíkur til aðhlynningar.
Að sögn lögreglunnar á svæðinu er þetta uggvænleg þróun, ekki síst þar sem vorboðarnir í umferðinni á svæðinu hafa einkum verið bílaleigubílar þar sem ökumenn eru óvanir að aka í lausamöl, og síðan lausaganga sauðfjár. Í tilvikunum undanfarið hefur ekki verið um bílaleigubíla að ræða. Vill lögregla beina þeim tilmælum til ökumanna um svæðið að fara sérstaklega varlega og virða hraðamörk.
Undir áhrifum og skírteinislaus
Á Suðurnesjum var tilkynnt um týndan dreng í morgun sem strax var hafin leit að. Fannst pilturinn undir hádegið en hann hafði vaknað snemma og farið út að leika sér án þess að láta vita.
Á Selfossi hafði einn ökumaður verið í Grímsnesinu grunaður um að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Var hann einnig með útrunnið ökuskírteini. Tekin var úr honum blóðprufa og send í rannsókn. Annars hafði umferð um svæðið gengið áfallalaust fyrir sig í dag þrátt fyrir töluverðan fjölda bíla á svæðinu.
Á Eskifirði hafði lögregla haft afskipti af nokkrum ökumönnum fyrir hraðakstur, einkum á Norðfjarðarvegi og á Fagradal þar sem menn höfðu verið að kitla pinnann.