Flugbátar af Catalinagerð voru í notkun hér á landi á árunum 1944-1963 og var slík vél fyrsta íslenska flugvélin til að fljúga á milli landa og önnur lék stórt hlutverk í þorskastríðinu. 68 ára gömul Catalinavél sveif um loftin blá yfir Reykjavík í dag, en hún verður til sýnis á Flugdeginum á morgun og gefst almenningi þá kostur á að skoða gripinn.
Ottó Tynes flugstjóri er fróður um Catalinavélar og segir fjórar slíkar hafa verið í eigu Loftleiða. „Þá voru engin flugvellir, en Köturnar gátu lent hvar sem er,“ segir Ottó og segir margar vélar af þessari tegund enn í fullu fjöri, þrátt fyrir að vera komnar hátt á sjötugsaldurinn.
„Loftleiðir eignuðust eina árið 1948 sem hét Dynjandi, hún var síðan seld til Kanada til að slökkva skógarelda og ég frétti af henni nýlega í notkun í Suður-Ameríku,“ segir Ottó.
Catalinavélin sem nú er stödd hér á landi er í eigu norskra aðila og fer á milli flugsýninga.
Fyrsti Catalinabátur Íslendinga var TF-ISP Flugfélags Íslands, kallaður Gamli-Pétur. Vélin var keypt frá Bandaríkjunum árið 1944. Hún varð fyrsta íslenska flugvélin til þess að fljúga milli landa þegar áhöfn skipuð þeim Erni Ó. Johnson flugstjóra, Smára Karlssyni flugmanni og Sigurði Ingólfssyni flugvélstjóra flaug vélinni heim frá New York í október 1944 ásamt tveimur Bandaríkjamönnum.
Þessi flugvél flaug fyrsta millilandaflug Flugfélags Íslands sumarið 1945.
Catalinaflugbátar Flugfélags Íslands, Gamli-Pétur, Sæfaxi og Skýfaxi, og Loftleiða, Vestfirðingur og Dynjandi, áttu mikinn þátt í uppbyggingu innanlandsflugs á árunum 1944 til 1961 þegar flugvellir voru fáir og samgöngur á landi erfiðar og tímafrekar.
Síðasti Catalinaflugbáturinn í notkun hérlendis var landhelgisflugvélin TF-Rán. Hún var í notkun hérlendis frá 1954-1963 og kom hún mjög við sögu í þorskveiðideilum Íslendinga við Breta.