Lokun Landsbankans á útibúi bankans á Eskifirði er harðlega mótmælt í ályktun stjórnar Íbúasamtaka Eskifjarðar. Er bent á að útibú Landsbankans hafi verið eina bankastofnunin á Eskifirði og að fyrir vikið hafi Eskfirðingar frekar beint viðskiptum sínum til hans en annarra banka.
Krefjast íbúasamtökin þess að stjórn Landsbankans endurskoði áform sín um að loka útibúinu í ljósi þess að bankinn sé að fullu í eigu íslenska ríkisins og skora ennfremur á stjórnvöld og þingmenn kjördæmisins að sjá til þess að það verði gert.
Ályktunin í heild:
„Stjórn íbúasamtaka Eskifjarðar mótmælir harðlega áformum Landsbanka Íslands hf. um
lokun útibús bankans á Eskifirði. Útibúið var stofnað 1918 og var lengi vel eina bankastofnunin á Austurlandi. Þetta er eina bankastofnunin sem Eskfirðingar hafa haft og í gegnum árin hafa Eskfirðingar beint viðskiptum sínum til Landsbankans frekar en annarra banka. Þjónusta útibúsins hefur verið mjög góð.
Nú þegar bankinn er að fullu kominn í eigu ríkisins aftur er óþolandi að kontóristar í Reykjavík ætli að taka þessa þjónustu af okkur.
Krefjumst við þess að stjórn bankans endurskoði þessi áform, og skorum á stjórnvöld og þingmenn kjördæmisins að sjá til þess að það verði gert.“