Peningar ekki rót alls ills

Framhaldsskólanemar eyða almennt mestum pening í mat, áfengi og bensín. Þeim gengur misvel að spara og fæstir hafa fengið nokkra fjármálafræðslu, en finnst þörf á því. Þetta kom í ljós þegar mbl.is spjallaði við ungmenni um fjármálalæsi, en í því hafa Íslendingar ítrekað fengið falleinkunn.

Hugtakið sjálft, fjármálalæsi, er fremur nýtt af nálinni. Í gagnasafni Morgunblaðsins kemur það t.d. fyrst fram árið 2004. Árið eftir, 2005, gerði Breki Karlsson rannsókn á fjármálalæsi íslenskra framhaldsskólanema og bentu niðurstöðurnar sterklega til þess að þeir væru ekki vel að sér í fjármálum, en hefðu almennt frekar mikinn áhuga á fræðslu um fjármál. 

Fjármálalæsi hefur hrakað frá hruni

Síðan hefur í raun lítið gerst. Fjármálalæsi varð ekki á allra vörum fyrr en við hrunið. Haustið 2008 skipaði Árni Páll Árnason, þá viðskiptaráðherra, nefnd sem gera skyldi tillögur um aðgerðir að bættum skilningi almennings á fjármálum. Nefndin lagði m.a. til að fjármálalæsi yrði sett í kennsluskrá bæði á grunn- og framhaldsskólastigi. Í fyrra var svo stofnuð önnur nefnd, á vegum menntamálaráðuneytisins, um fjármálafræðslu í grunnskólum. Sú nefnd á að starfa í þrjú ár og skila síðan tillögum. 

Í millitíðinni, frá fyrstu rannsókninni og til dagsins í dag, hafa sjö árgangar orðið fjárráða án þess að fjármálafræðsla væri liður í námskránni. Í maíbyrjun voru svo kynntar niðurstöður nýrrar rannsóknar á fjármálalæsi Íslendinga, sem leiddi í ljós að fjármálalæsi hefur hrakað frá árinu 2008. 

Börn verða neytendur sex ára

Breki Karlsson segir að þetta þurfi ekki að taka svona langan tíma. Hann bendir á að innan OECD sé fyrir hendi aðgerðaáætlun um hvernig standa ætti að fjármálakennslu. „Öll þessi grunnvinna hefur verið unnin annars staðar. Við þyrftum mánuð til þess að skipuleggja okkur, en ekki þrjú ár.“ Aðspurður hvenær æskilegt væri að hefja fjármálakennslu svarar Breki að það sé strax um sex ára aldurinn. „Sumir segja að það eigi ekki að tala um peninga við börn, en strax þegar þau eru sex ára gömul eru börn orðin neytendur. Auglýsingar beinast að þeim og þau veita þeim athygli.“

Sjálfur hefur Breki leitað lengi að góðu námsefni fyrir börn og hefur fundið það besta í Hollandi. Verkefnið nefnist Aflatoun og er kennt yfir milljón börnum á aldrinum 6 til 14 ára í 83 löndum. „Það magnaða er að krakkar vilja læra þetta. Ég hef flutt fyrirlestra bæði í framhaldsskólum og grunnskólum og alls staðar eru bæði foreldrar og krakkarnir sjálfir rosalega þakklátir fyrir. Það er ofboðslega mikill áhugi á að skilja fjármál.“

Sparnaður til að uppfylla drauma og þrár 

Eftirspurnin eftir fjármálalæsiskennslu er því tvímælalaust fyrir hendi, en ekki síður mikilvægt er hvernig við tölum um peninga almennt okkar á milli. „Þetta er mjög sálfræðilegt. Samskipti fjölskyldna um fjármál eru nánast alltaf á neikvæðu nótunum, það er ekki talað um peninga nema þá vanti eða eitthvað hafi farið úrskeiðis. Við tölum alltaf svo illa um peninga og þess vegna held ég að margir eigi í erfiðleikum með að eiga við peninga, vegna þess að þeir gera það ekki fyrr en í óefni er komið.“

Breki segir þess vegna mikilvægt að fjalla um peninga á jákvæðum nótum enda séu þeir nokkuð sem fólk þurfi að takast á við alla daga. Peningar séu ekki rót alls ills. „Ef við tölum við börnin okkar um sparnað til dæmis þá getum við talað um það út frá því fyrir hverju þau vilji safna, hvað þau vilji gera þegar þau eru orðin stór. Þá er maður ekki að tala um krónur og aura, heldur um drauma og þrár. Peningar eru ekki leiðinlegir eða vondir, heldur bara hlutlaust fyrirbæri sem við sjálf leggjum merkingu í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert