Eins og fram hefur komið á mbl.is hafa verið truflanir á netsambandi í gegnum netkerfi Símans í morgun sem virðast hafa byrjað laust fyrir klukkan níu, en þær hafa meðal annars haft áhrif á aðgengi notenda að mbl.is.
Gera má ráð fyrir að truflanirnar hafi haft áhrif á fjölmarga notendur en þegar blaðamaður mbl.is hringdi í þjónustuver Símans rétt í þessu fékk hann þau skilaboð að hann væri númer 44 í röðinni eftir því að fá samband við þjónustufulltrúa.
„Það er um að ræða miðlæga bilun í IP-neti Símans sem hefur haft áhrif á internetsamband innanlands sem og internetumferð frá útlöndum. Bilunin hefur einnig haft áhrif á fyrirtækjatengingar í ip-neti símans þannig að fyrirtæki hafa einnig orðið fyrir þessu,“ segir Margrét Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.
Eins og mbl.is hefur greint frá hafa verið truflanir á nettengingum í gegnum netkerfi Símans í morgun. Margrét segir að tæknimenn fyrirtækisins vinni nú að lagfæringum á netkerfinu en einhverjar truflanir kunni að verða næstu klukkutímana.