Eldhúsdagsumræður fara fram á Alþingi annað kvöld. Samkvæmt starfsáætlun þingsins á að fresta fundum Alþingis á fimmtudag, en talið er ólíklegt að sú áætlun standist.
Almennar stjórnmálaumræður fara fram annað kvöld og hefst umræðan kl. 19:50. Þeim verður útvarpað og sjónvarpað.
Samkvæmt starfsáætlun Alþingis verður þingfundur á miðvikudaginn og fimmtudaginn, en sá dagur á að vera síðasti fundardagur á þessu vorþingi.
Mörg stór mál, sem ríkisstjórnin leggur áherslu á, eru óafgreidd. Þeirra stærst eru rammaáætlun um nýtingu og verndun jarð- og vatnsafls, og frumvörp um veiðigjöld og stjórn fiskveiða. Bæði þessi mál eru enn til umfjöllunar í atvinnuveganefnd.