Bryan Ferry vakti stormandi lukku þegar hann kom fram í Hörpu í gærkvöldi. Ferry lék mörg af sínum þekktustu lögum, jafnt frá sólóferli sínum sem af plötum sínum með hljómsveitinni Roxy Music auk þess sem hann leitaði í smiðju Johns Lennons, Neils Youngs og Bobs Dylans.
Ferry söng með stórri hljómsveit, bakraddasöngkonum og dönsurum og hafði meðal annars Paul Thompson trommuleikara, sem lengi hefur starfað með honum, sér til fulltingis.
Gunnlaugur Briem trommuleikari kynnti Ferry í upphafi tónleikanna og greindi jafnframt frá því að þeir mörkuðu upphaf alþjóðlegra Nelson Mandela-daga á Íslandi.
Tónleikar Ferrys eru hluti af Listahátíð. Hann kemur aftur fram í Hörpu í kvöld.