Segir að hér sé þingræði en ekki forsetaræði

Þóra Arnórsdóttir og maður hennar, Svavar Halldórsson, með dótturina sem …
Þóra Arnórsdóttir og maður hennar, Svavar Halldórsson, með dótturina sem fæddist 18. maí sl. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þóra Arnórsdóttir forsetaframbjóðandi segir að forseti sem rekur eigin stjórnmálastefnu í samkeppni við þjóðkjörið þing geti ekki ræktað sitt meginhlutverk sem sé að vera sameiningarafl.

Þetta kom fram í ræðu hennar þegar hún opnaði kosningaskrifstofu sína í dag.    

„Valkostirnir eru tveir. Sú sem hér stendur og að veita núverandi forseta áframhaldandi umboð til þess að sitja í 20 ár. 20 ár,“ endurtók Þóra og bætti við: „Er það nema von að fólk sé hissa,“ segir Þóra.

„Forseti sem rekur eigin stjórnmálastefnu í samkeppni við þjóðkjörið þing, hann getur ekki fullkomlega ræktað sitt meginhlutverk sem er að vera sameiningarafl inn á við. Að vera forseti allrar þjóðarinnar. Ekki bara þeirra sem deila pólitískri sýn á viss deilumál,“ segir Þóra.  

Þóra hyggst taka á ný upp fundi með stjórnmálaleiðtogum landsins. Þar stefni hún að því að hlusta á öll sjónarmið.  

„Forsetinn á ekki að vera þátttakandi í hinum pólitíska leik. Það þýðir að hann lætur stjórnmálaflokkana um hina daglegu pólitísku umræðu. En þegar til kastanna kemur þá lætur hann alla njóta sannmælis sama hvar í flokki sem þeir standa,“ sagði Þóra í framboðsræðu sinni. 

Hún telur núverandi forseta „mistúlka embætti sitt“. „Þegar Ísland fékk sjálfstæði frá Dönum árið 1944 var alveg skýrt að í hinu nýja lýðveldi yrði þingræði með forseta, ekki forsetaræði.“

Hún segir að völdin sem felist í 26. greininni séu umtalsverð. En í þingræðisríki sé það vald sem verður ekki beitt nema í ýtrustu nauð.

Hún hvetur þingið til bættra vinnubragða. „Ef málum er  þröngvað í gegn með minnsta mögulegum meirihluta aukast líkur á því að kjósendur taki sig saman og hafni lögum sem þannig eru samþykkt.“ 

Að lokum stillti hún málunum upp þannig að hér tækist á fortíð og framtíð.
„Þessar forsetakosningar eru  mikilvægar. Hvort ætlum við að horfa til baka eða horfa fram á við og byggja upp? Ég skynja þessa undirliggjandi þörf til þess að fara að byggja upp, þar sem við vinnum saman að hagsmunum lands og þjóðar. Við eigum að hafna átakastjórnmálum og gömlum kreddum,“ segir Þóra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert