Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt konu fyrir að hafa á jóladag 2010 slegið son sinn þegar hann var tímabundið í umsjá hennar. Konan sagði drenginn hafa verið mjög æstan en á slíkum stundum geti hann verið sjálfum sér og öðrum hættulegur. Refsingu var frestað en konunni gert að greiða syni sínum 150 þúsund krónur.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að skýrslutaka af syninum hafi farið fram í Barnahúsi 1. júní 2011 eða rúmum fimm mánuðum eftir að atburðurinn átti sér stað. Það geti haft áhrif á framburð hans. Engu að síður var það mat dómsins að pilturinn hafi með trúverðugum hætti greint frá því að móðir hans sló hann á vangann. Og að það sé í samræmi við framburð konunnar sjálfrar.
Faðir piltsins tók myndir af áverkum á vanga drengsins eftir heimsókn á læknavaktina 28. desember 2010. Læknir sem kom fyrir dóminn staðfesti einnig að áverkar á piltinum væru far eftir hönd.
Við ákvörðun refsingar leit dómurinn meðal annars til þess að rannsókn lögreglu lá lengi niðri, án þess að það hafi verið konunni að kenna. Slíkt sé andstætt málshraðareglu laga um meðferð sakamála, gegn ákvæði í stjórnarskrá og mannréttindasáttamála Evrópu. Því þótti rétt að fresta refsingu, og fellur hún niður eftir tvö ár haldi konan almennt skilorð.
Þar sem konan var hins vegar sakfelld fyrir líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum átti pilturinn, sem er ólögráða, rétt á bótum. Ljóst þótti að brot konunnar sé til þess fallið að hafa áhrif á tilfinningalega líðan sonar hennar. Þá hafa engin samskipti verið þeirra á milli frá því málið kom upp, en konan og faðir piltsins fara sameiginlega með forsjá hans.