Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, hefur í dag átt óformleg samtöl við formenn þingflokka um framhald þingstarfa. Engin niðurstaða liggur fyrir, en reiknað er með að málið verði rætt frekar á morgun.
Samkvæmt starfsáætlun Alþingis ætti síðasti þingfundur að verða á fimmtudaginn. Mörg mál eru hins vegar óafgreidd, bæði mál sem ágreiningur er um og mál sem samkomulag er um.
Á síðasta þingfundi var rætt um Vaðlaheiðargöng, en það mál er ekki útrætt. Önnur stór mál eru kvótafrumvörpin og rammaáætlun, en þessi mál eru enn til umfjöllunar í þingnefnd.
Nokkur frumvörp liggja fyrir þinginu sem innihalda dagsetningar sem miða við gildistöku 1. júní. Ekki liggur fyrir hvenær þau klárast.