Enn ekki komin á áfangastað

Þingfundur á Alþingi.
Þingfundur á Alþingi. mbl.is/Golli

Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi að þrátt fyrir sumarblíðuna þurfum við Íslendingar að horfast í augu við það að enn séum við ekki komin á þann áfangastað sem við ætluðum okkur. Séð sé fyrir endann á erfiðleikunum en þó megi ekki sleppa takinu strax.

Hún sagði að ráðast þurfi í mörg brýn verkefni og ljóst að árangur af aðhaldsrekstri sé mikill. Það eigi ekki aðeins að vera áhugamál fjármálaráðherra heldur allra þingmanna að gæta að því að íslenska ríkið verji ekki meiri fjármunum [til verkefna] en það aflar. Það skipti máli að okkur miði vel að komast á áfangastað.

Fyrir auðlindina á að greiða

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ræddi meðal annars um sjávarútveginn og lagasetningu í sjávarútvegsmálum. Hún sagði að lagasetning eigi ekki að þóknast þröngum hugmyndafræðilegum markmiðum ríkisstjórnarinnar. „En ég er fylgjandi veiðigjaldi. Fyrir auðlindina á að greiða. Aðferðafræðina verður hins vegar að vinna í samvinnu löggjafans og hagsmunaaðila með heildarhagsmuni en ekki sérhagsmuni að leiðarljósi.“

Þá sagði Ragnheiður að margar fjölskyldur og einstaklingar séu enn í kröppum dansi, verðbólga aukist og lánin hækki. Það sé skylda stjórnmálamanna að ryðja úr vegi pólitískum hindrunum til að efla hér tækifæri til verðmætasköpunar. Til dæmis verði að breyta um skattastefnu enda hvetji lágir skattar en háir skattar letji.

Birki Jóni Jónssyni, þingmanni Framsóknarflokks, varð einnig tíðrætt um fjárfestingarstefnu og minnti á að framsóknarmenn hefðu ítrekað lagt fram tillögur í efnahagsmálum, eftir ýtarlegt samráð við aðila í efnahagslífinu. Þar komi fram að tækifæri blasi við en ríkisstjórnin hafi ekki hlustað á þær tillögur.

Einnig sagði Birkir að hverfa verði frá öfgum í hugmyndafræði, hvort sem það sé til vinstri eða hægri. „Hófsöm miðjustefna hefur sjaldan átt eins mikið við, þar sem verkin tala.“

Gott að komast í sólina

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði að gott hefði verið að komast í sólina um hvítasunnuhelgina. „Allir sem maður hitti voru í góðu skapi, það var góð tilbreyting.“ Ögmundur sagði að nú þegar sjái til sólar sé ánægjuefni að geta sett aukna fjármuni í framkvæmdir, bæði á landsbyggðinni og ekki síður á höfuðborgarsvæðinu. Það verði til þess að skapa atvinnu, sem sé það sem skiptir einstaklinga og fjölskyldur grundvallarmáli. Missi menn vinnuna hverfi lífsbjörgin og á stundum lífsgleðin.

Ráðherrann ræddi einnig um Evrópusambandið og sagði, aldrei þessu vant, gott að fá stækkunarstjóra ESB í heimsókn hingað til lands. Hann hafi staðfest það sem margir vita, að hægt sé að ljúka aðildarviðræðum á tiltölulega stuttum tíma. Þá geti þjóðin gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu á þeim upplýsta grundvelli sem kallað hefur verið eftir. „Viðfangsefnið er að leita eftir samstöðu um dagsetningu á þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt verður hvort við viljum ganga í Evrópusambandið.“

Hann sagði að það eigi ekki að henda okkur sem gerðist í Noregi. „Ég vil ekki að við hlaupum frá þessu verki, en við verðum að knýja á um niðurstöðu. Þjóðin á rétt á aðkomu í þessu máli áður en umboð er endurnýjað í þingkosningum.“

Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra
Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra Ómar Óskarsson
Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Ragnheiður Ríkharðsdóttir Eyþór Árnason
Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert