Heimilin og fyrirtækin á oddinn

Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég vil hér, enn einu sinni, rétta fram sáttarhönd. Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn til þess að ná fram þverpólitískri sátt um þau mál sem snúa að því að bæta hag heimila og fyrirtækja,“ sagði Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokks, við eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld.

Ólöf sagði í ræðu sinni, að tími sé kominn til að setja heimilin og fyrirtækin á oddinn. „Við þurfum að leysa skuldamál heimilanna, við þurfum að skapa umhverfi þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki geta vaxið, ráðið starfsfólk og horft til framtíðar. Við þurfum að skapa hér umhverfi þar sem heimilin geta horft áhyggjulaus til framtíðar.“

Hún sagði að á meðan heimilin nái ekki saman og fyrirtækin geti ekki vaxið leggi ríkisstjórnin áherslu á pólitíska hugmyndasigra. Því skuli engan undra að hvessi í þingsal þegar mörg umdeild mál eru lögð fram, að ekkert þeirra snúi að því að bæta hag heimilanna í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn hafi ítrekað farið fram á að rýmt yrði á dagskrá þingsins svo mikilvæg mál fáist rædd, á það hafi ekki verið hlustað.

Yfirgangur sem nær nýjum hæðum

Ólöf sagði yfirgang framkvæmdavaldsins gagnvart löggjafasamkundunni hafa náð nýjum hæðum á yfirstandandi kjörtímabili. Á síðustu þremur árum hafi hrúgast inn mál á síðasta mögulega degi, yfir fimmtíu mál hvert ár, og þar á meðal grundvallarmál og mál sem verulegur ágreiningur stendur um. „Við slíkar aðstæður er það skylda þingsins og stjórnarandstöðunnar að grípa í taumana og stöðva þessa frekju framkvæmdavaldsins.“

Ennfremur vék Ólöf aðeins að því vantrausti sem ríkti á störfum þingsins. „Við það verður ekki unað lengur, og lykilatriði í því að skapa traust að nýju, að setja á dagskrá mikilvæg mál sem skipta landsmenn einhverju máli.“

Hún sagði eitt alvarlegasta dæmið um yfirgang ríkisstjórnarinnar stjórnarskrármálið, sem hafi frá upphafi verið í ógöngum. „Enginn raunverulegur vilji hefur verið til að ræða inntak tillagna stjórnlagaráðs og hvort raunverulegur vilji sé til þess á þingi að gera svo miklar breytingar á stjórnarskránni. [...] Breytingar á stjórnarskrá bæta ekki hag heimila og fyrirtækja. Eigum við ekki að setja þau mál í forgang fyrst?“

Brugðist litlum og meðalstórum fyrirtækjum

Hvað efnahagsmálin áhrærir sagði Ólöf að gera þurfi mun betur í atvinnuvegafjárfestingu. Af hagvaxtartölum verði ekki séð að atvinnulífið sé að taka við sér og ríkisstjórnin hafi því brugðist litlum og millistórum fyrirtækjum algjörlega. „Nýjasta útspilið í loforðum um þúsundir starfa, fjórða árið í röð, breytir engu þar um. Ríkisstjórnin hefur ítrekað brugðist litlum og meðalstórum fyrirtækjum, alveg eins og hún hefur brugðist heimilum landsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert