Stjórnarliðar kynntu í dag tillögur um breytingar á frumvarpi um veiðigjöld. Tillögurnar fela í sér að gjöldin lækka úr 24-27 milljörðum niður í um 15 milljarða. Breytingarnar miða að því að létta gjöldum af litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að með þessum tillögum sé meirihlutinn að viðurkenna að gengið hafi verið allt of langt í gjaldtöku í upphaflegu frumvarpi og eins að reikniaðferðirnar sem þar var stuðst við hafi verið rangar.
Daði Már Kristófersson, dósent við Háskóla Íslands, og Stefán B. Gunnlaugsson við Háskólann á Akureyri munu koma fyrir atvinnuveganefnd á morgun, en þeir skiluðu skýrslu um áhrif þeirra breytinga sem fólust í frumvarpinu. Þeir gagnrýndu frumvarpið harðlega í umsögn sinni.
Jón sagði þær breytingar sem frumvarpið fól í sér hafa komið mjög illa við lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki. Með þessum breytingatillögum væri verið að koma til móts við þau.
Miðað við þessar tillögur má reikna með að útgerðin þurfi í dag að greiða um 11 milljarða í sérstakt veiðigjald á ári og um fjóra milljarða í almennt gjald. Það er umtalsverð hækkun frá því sem nú er.
„Stjórnvöld hafa verið á miklum villigötum varðandi hugmyndir sínar um hvað útgerðin getur staðið undir í veiðigjaldi. Mér finnst upphæðin enn mjög há, en við eigum eftir að sjá yfirferð sérfræðinga á hvaða áhrif þetta getur haft á greinina. Meginatriðið er að það má ekki skerða þessa mikilvægu grein þannig að það komi niður á fjárfestingum í greininni sem eru okkur gríðarlega mikilvægar,“ segir Jón.
Engar breytingartillögur voru lagðar fram á fundinum í dag um frumvarpið um stjórn fiskveiða. Annar fundur verður í nefndinni á morgun.