„Ríkisstjórnin hefur valið leið illdeilna þegar sáttaleiðir eru í boði. Í ræðu og riti hefur forsætisráðherra sýnt af sér ótrúlega framkomu gagnvart ákveðnum aðilum atvinnulífsins. Forsætisráðherra sem ætti að fara fram af yfirvegun og hafa það að markmiði að sætta aðila, kýs oft að hella olíu á eldinn.“ Þetta sagði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, við eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld.
Jón sagði það ósamboðið embætti forsætisráðherra hvernig Jóhanna Sigurðardóttir hafi með uppnefnum og dónaskap vegið að fólki í atvinnulífinu. „Aðilar vinnumarkaðarins hafa fyrir löngu gefist upp á að ræða við þessa ríkisstjórn vegna ítrekaðra vanefnda hennar. Það hefur ekki skort á lýðskrumið og yfirlýsingagleðina um loforð fyrir svo og svo mörgum störfum á hverjum tíma.“