Þjóðin mun ekki vorkenna þingmönnum þótt þeir þurfi að vinna inn í sumarið né mun hún fyrirgefa þeim fari þeir heim frá ókláruðum störfum, sagði Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld.
Steingrímur sagði að sá viðsnúningur sem náðst hefði í efnahagsmálum væri gríðarlega mikilvægur en bæði hefði tekist að rétta af halla ríkissjóðs og skapa hagvöxt á ný. Raunar væri það svo að hagvöxtur á Íslandi væri einn sá mesti sem fyrirfyndist meðal þróaðra hagkerfa og væri meiri en í löndum ESB, Bandaríkjunum, Japan og í Noregi.
Steingrímur sagði að sjá mætti á gengi annarra landa að ekki væri sjálfgefið að hér væri jafn mikill hagvöxtur og raun bæri vitni og vert væri að minnast þess í ljósi þess svartagallsrauss sem hefði hljómað á þingi. Frá hagrænu sjónarmiði væri það markvert að þrátt fyrir að ráðist hefði verið í umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir hefði á sama tíma tekist að ná hagvexti í gang.
Ráðherrann sagði að margir hefðu spáð því að Ísland myndi lenda í tvöfaldri dýfu, að sparnaður hjá ríki og sveitarfélögum myndi leiða til tvöfaldrar dýfu. En það hefði ekki orðið reyndin. Fyrir því væru margar ástæður, fall krónunnar hefði t.d. komið útflutnings- og samkeppnisgreinum vel og leitt til uppsveiflu í ferðaþjónustu.
Þá sagði hann að sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fara blandaða leið tekjuöflunar og aðhaldsaðgerða til að rétta hagkerfið við hefði reynst efnahagslega farsæl. Því gætu menn ekki neitað nema þeir horfðu algjörlega fram hjá opinberum hagtölum, innlendum sem erlendum. Þessi leið hefði komið Íslandi betur í gang á ný en tekist hefði hjá nokkru öðru þróuðu hagkerfi.
Steingrímur sagði að þvert á þróun mála í öðrum Evrópulöndum hefði dregið úr atvinnuleysi, sem yrði minna en 6% í maí eða júní í síðasta lagi. Á sama tíma myndi íbúatala landsins rjúfa 320 þúsunda múrinn.
Hann sagði að jafnvægi hefði náðst í búferlaflutningum til og frá landinu en þar spilaði m.a. inn í að atvinnuleysi hefði minnkað. Hann nefndi í því samhengi átaksverkefnið Nám er vinnandi vegur og gaf lítið fyrir þá sem hefðu sagt að ekkert væri að marka að atvinnuleysi væri að minnka þar sem það væru bara fleiri í skóla. „Var það ekki það sem að var stefnt?“ spurði ráðherrann; á meðan erfitt væri á atvinnumarkaði hefði fólk verið hvatt til að mennta sig og þannig verið fjárfest í framtíðinni.
Steingrímur sagði að svartsýnismenn hefðu reynst hafa rangt fyrir sér. Kaupmáttur færi vaxandi en verðbólgan væri vissulega áhyggjuefni, gjaldeyrishöft enn til staðar og atvinnuleysi enn of mikið. Áfram væri þörf á aðgerðum til að standa við bakið á skuldsettum fjölskyldum.
Að lokum sagði Steingrímur að vörn hefði verið snúið í sókn og fyrir lægi að ná landinu hraðar út úr efnahagsvandanum. Hann sagði að þjóðin myndi ekki vorkenna þingmönnum fyrir að vinna inn í sumarið né myndi hún fyrirgefa þeim fyrir að fara heim frá ókláruðum störfum. Þá sagði hann stjórnarandstöðuna þurfa að axla ábyrgð á því hvernig komið væri ekki síður en stjórnarflokkana en hún hefði staðið í stöðugum andsvörum við sjálfa sig á þingi.
Hann sagði þjóðina hafa gengið í gegnum erfiða tíma en hún væri að sigrast á þeim og eftirleikurinn yrði auðveldari.