Margir viðskiptavinir Lýsingar hafa í dag haft samband við fyrirtækið vegna greiðsluseðla sem það sendi til viðskiptavina sinna. Sendir eru út gíróseðlar vegna þriggja mánaða, en seðlar hafa ekki verið sendir út síðan í febrúar.
Eftir að Hæstiréttur kvað upp dóm um vaxtaútreikning gengistryggðra lána sendi Fjármálaeftirlitið tilmæli til fjármálafyrirtækja um bregðast við dómnum. Lýsing ákvað að fresta útgáfu greiðsluseðla á meðan frekari skoðun á samningasafni félagsins færi fram.
Í fréttatilkynningu frá Lýsingu segir að þeirri skoðun sé nú lokið og „tryggt hafi verið að greiðslur viðskiptavina eftir 15. febrúar sl., sem mögulega eru umfram það sem samningar þeirra kveða á um miðað við ítrustu bráðabirgðaútreikninga sem kynntir hafa verið fyrir Fjármálaeftirlitinu, fara hér eftir inn á sérstakan geymslureikning í Arion banka hf. og verður ekki ráðstafað þaðan fyrr en endanleg niðurstaða í frekari dómsmálum liggur fyrir. “
Lýsing hefur nú sent út greiðsluseðla á um 5.000 kennitölur einstaklinga sem eru með lán hjá félaginu. Óskað er eftir að fólk greiði greiðsluseðlar vegna apríl, maí og júní. Eindagi apríl greiðsluseðils er 10 dögum eftir útgáfudag en eindagi maí og júní greiðsluseðla er 20 dögum eftir útgáfudag.
Þeir viðskiptavinir sem telja sig ekki geta greitt alla þrjá greiðsluseðla innan sama mánaðar eru beðnir um að hafa samband við Lýsingu. Samkvæmt upplýsingum frá Lýsingu hafa margir haft samband. Komið sé á móts við viðskiptavini sem ekki treysti sér til að greiða alla þrjá greiðsluseðla fyrir eindaga.