Fór betur en á horfðist

Kona á miðjum aldri slapp svo gott sem ómeidd eftir umferðarslys síðdegis í gær. Þá ók hún bifreið sinni, Volkswagen Polo, á brúarstólpa með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði ofan í læk sem rennur við Fornu-Fróðá, skammt frá gatnamótunum að Fróðárheiði á norðanverðu Snæfellsnesi.

Samkvæmt upplýsingum frá vegfaranda fór bifreiðin af miklu afli fram af brúnni og hafnaði raunar á brúarstólpanum fjær áður en hún lenti á hvolfi ofan í læknum.

Konan, sem var ein í bílnum, komst af sjálfsdáðum út og þykir með ólíkindum að hún hafi sloppið svo vel frá slysinu. Meiðsli hennar reyndust lítilsháttar og eru tildrög slyssins enn ókunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert