Engin augljós tengsl eru á milli makrílveiða og umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið að sögn Štefans Füle, stækkunarstjóra sambandsins, í samtali við evrópsku fréttaveituna Agence Europe en þar ræðir hann um heimsókn sína til Íslands nýverið þar sem hann hitti meðal annars forystumenn í stjórnmálum og atvinnulífi landsins.
Í fréttinni er haft eftir Füle að viðræðurnar við Ísland um aðild að ESB gangi á heildina litið vel. 15 samningskaflar hefðu verið opnaðir til þessa og af þeim hefði tíu verið lokað. Hann vonaðist til þess að þrír kaflar til viðbótar yrðu opnaðir mjög fljótlega en samningskaflarnir eru í heildina 35 talsins.
Fram kemur að búist sé við að viðræðurnar um sjávarútvegs og landbúnaðar verði flóknastar en Füle vonist hins vegar til þess að staðan í þeim efnum verði skýrari eftir þingkosningarnar á Íslandi á næsta ári. Þá ræðir hann um fyrirhugaða vinnu starfshóps íslenskra stjórnvalda og ESB sem ætlað er að leggja mat á það með hvaða hætti megi aflétta gjaldeyrishöftunum.
Að endingu ræðir Füle um atkvæðagreiðsluna á Alþingi á dögunum um það hvort halda ætti þjóðaratkvæði um það hvort draga bæri umsóknina um aðild að ESB til baka. Segist hann almennt hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum en hins vegar verði að virða vinnu þeirra sem tækju þátt í aðildarviðræðunum og að þjóðaratkvæði ætti að fara fram þegar aðildarsamningur lægi fyrir.