Ofbeldismál gegn börnum algeng

Ofbeldismál gegn börnum koma upp mjög reglulega. (Myndin tengist fréttinni …
Ofbeldismál gegn börnum koma upp mjög reglulega. (Myndin tengist fréttinni ekki beint) mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Umboðsmaður barna segir ofbeldismál gegn börnum koma upp mjög reglulega. Hún fagnar því að Héraðsdómur Suðurlands hafi dæmt konu seka fyrir að hafa löðrungað barn sitt og segir það mikilvægt að börn njóti verndar eins og aðrir þjóðfélagsþegnar. „Börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi líkt og fullorðnir,“ segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.

Í vikunni dæmdi Héraðsdómur Suðurlands konu seka fyrir að hafa löðrungað barn sitt og viðurkenndi hún brot sitt. Barnið var marið á vanga en brotið átti sér stað á jóladag árið 2010 eins og segir í frétt mbl.

Árið 2009 var maður sýknaður fyrir að hafa rassskellt tvö börn nokkrum sinnum og voru það ákveðin vonbrigði að mati Margrétar þar sem þarna var augljóslega verið að brjóta á rétti barnanna. Þá sagði Hæstiréttur „þótt það sé skoðun dómara að það sé óheppilegt og óæskilegt að flengja börn, er varhugavert að slá því föstu hér að það falli ætíð undir það að vera yfirgangur, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi í skilningi nefnds ákvæðis. Verður því ekki fallist á að verknaður ákærða verði heimfærður til ákvæða 1. mgr. og 3. mgr. 99. gr. laga nr. 80/2002. Samkvæmt þessu verður ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins að því er varðar 1. tl. ákærunnar.“

Í barnaverndarlögum er skv. 99.gr bannað að beita barn andlegum eða líkamlegum refsingum, hótunum eða ógnunum eða sýna af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni. Refsing við þessu eru sektir eða fangelsi allt að þremur árum. Þá er í almennum hegningarlögum viðurlög við bæði minniháttar og meiriháttar líkamsárásum.

Umboðsmaður barna fræðir börn um réttindi þeirra og hefur teymi hans hitt um 5000 börn síðastliðin tvö ár. Þar eru þau frædd um allt mögulegt og þar á meðal um rétt þeirra til að lifa án ofbeldis eins og aðrir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert