Betur fór en á horfðist þegar gámaflutningabíll rakst á lítinn fólksbíl á Miklubraut við Skaftahlíð í dag. Ökumaður fólksbifreiðarinnar missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún hringsnerist og fór í gegnum girðingu á umferðareyju.
Óhappið varð um kl 10:30 í morgun. Starfsmaður frá Aðstoð & Öryggi fór á staðinn og segir hann í samtali við mbl.is að ökumaður gámaflutningabílsins hafi verið að skipta frá vinstri yfir á hægri akrein. Hann hafi hins vegar ekki séð fólkbílinn og ekið utan í hann með fyrrgreindum afleiðingum.Starfsmaður A&Ö segir að mikil hemlaför sjáist á veginum.
Kona ók fólksbílnum og var henni mjög brugðið. Þá kvartaði hún undan eymslum í hálsi, en enginn var hins vegar fluttur á slysadeild.
Þá segir starfsmaður A&Ö að leigubílstjóri hafi verið mjög hjálplegur á vettvangi. Hann stöðvaði sinn bíl, setti upp öryggisþríhyrning á vettvangi og kom í veg fyrir frekari óhöpp.
Dráttarbifreið var kölluð á staðinn til að draga fólksbílinn. Gámaflutningabíllinn skemmdist minniháttar.