Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis ákvað í kvöld að ljúka umræðu um veiðigjaldafrumvarpið og vísa því til annarrar umræðu í þinginu. Lagðar eru til óverulegar breytingar á frumvarpinu. Björn Valur Gíslason, framsögumaður málsins, segir breytingarnar að mestu tæknilegar.
Björn Valur setur þó þann fyrirvara að málið sé enn til umræðu í nefndinni og geti enn breyst. Hann segir tíma kominn til að þingið ræði málið að nýju, en þar opnast það fyrir samfélaginu öllu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í nefndinni voru ekki ánægðir með vinnubrögðin. „Það kom í ljós að öll sú vinna sem hefur farið í þetta mál í nefndinni, öll vinna umsagnaraðila og þess fólks sem kom til fundar með nefndinni, var til einskis,“ segir Jón Gunnarsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks.
Hann segir að fulltrúar meirihlutans séu með vinnubrögðum sínum að vanvirða það fólk sem haft hefði fyrir því að leggja vel rökstudd álit fyrir nefndina.