Opni erfiðustu kaflana sem fyrst

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði á Alþingi í dag að hann vildi knýja á um að stóru og erfiðu kaflarnir yrðu opnaðir sem fyrst í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið.

Steingrímur sagði þetta í svari við fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni, þingflokksformanni Framsóknarflokksins. Gunnar Bragi spurði Steingrími hvort hann væri sammála sjónarmiðum þeirra þingmanna og ráðherra VG sem hafa viljað láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok þessa kjörtímabils um þá kafla sem þá liggja fyrir. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hafa lýst sjónarmiðum í þessa veru. Jón Bjarnason og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir vilja atkvæðagreiðslu um ESB-aðild sem fyrst.

Steingrímur sagði að það hefði aldrei verið neinn ágreiningur um að menn vildu fá efnislega niðurstöðu um aðild Íslands að ESB sem fyrst, þó vera kynni að menn hefðu sett fram þau sjónarmið með eitthvað mismunandi hætti. Hann sagðist ekki vera ánægður með hvað viðræðurnar hefðu dregist. Hann sagðist vilja knýja á um að menn væru að ræða erfiðustu kaflana sem fyrst og nefndi sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, matvælalöggjöf og tolla í því sambandi.

„Það var ekki ætlunin að málinu væru enn í einhverri fullkominni óvissu þegar við nálguðumst kosningar að loknu þessu kjörtímabili,“ sagði Steingrímur og bætti við að hann vildi ekki hætta viðræðum við ESB í miðjum klíðum. Þá hefði þessi leiðangur allur verið til lítils.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert