Hiti í Reykjavík fór hæst í fimmtán stig í dag og óhætt að segja að veðrið hafi leikið við íbúa höfuðborgarinnar. Hvert sem litið var mátti sjá fáklætt fólkið njóta lífsins og heyra raulaðan söngtexta við lag GCD: „Sumarið er tíminn.“
Veðrið var víðast hvar á landinu gott í dag og fór hiti hæstur í 18,8 stig á Hvanneyri og Húsafelli, að því segir á vefsvæði Veðurstofu Íslands.
Samkvæmt spá Veðurstofunnar mun veður breytast lítið til morguns. Búið er við hægviðri eða hafgolu og verður yfirleitt léttskýjað, en sums staðar þokubakkar við sjóinn í nótt. Hiti 12 til 20 stig að deginum, hlýjast í uppsveitum SV-lands, en svalara úti við A-ströndina.
Laugardagurinn verður einnig sérdeilis góður og breytist hiti lítið. Hins vegar má búast við síðdegisskúrum á laugardag og tekur að kólna með kvöldinu.
Ljósmyndarar mbl.is og Morgunblaðsins fóru víða um bæinn í dag og smelltu af myndum. Sjá má myndasyrpu af íbúum höfuðborgarsvæðisins í góða veðrinu í dag hér að neðan.