Mikill er máttur netheima er stundum haft á orði. Það reyndist svo sannarlega rétt í tilfelli Beggu Rist og Sveins Atla Gunnarssonar sem leituðu eiganda giftingarhrings sem þau fundu á sólarströnd á Spáni fyrir fjórum árum. Fannst eigandinn nú í vikunni eftir að fregnir af leitinni bárust dagblaðinu Aftonbladet í Svíþjóð til eyrna. Hafði hringurinn þá verið týndur í sjö ár.
„Hún var að vonum himinlifandi, var ofboðslega ánægð og líka hissa enda svo langur tími liðinn. Hún var m.a.s. búin að fá sér annan,“ segir Begga um viðbrögð eiganda hringsins, Kerstinar, við því þegar hún hringdi í hana og lét vita að hringurinn væri á Íslandi.
Leitin barst víða
Ófáar leiðir höfðu verið reyndar til að hafa uppi á eiganda hringsins, sem Begga fann við leik með dætrum þeirra Sveins Atla á sólarströnd á Tenerife árið 2008. Innan í hringinn voru greypt nöfnin „Kerstin og Jan“ og dagsetningin 4. júní nítjánhundruð fimmtíu- eða sextíu og eitthvað. Eftir mikla leit, m.a. á netinu, fundu þau út að líklega væri hringurinn sænskur og fékkst það staðfest hjá gullsmið hér á landi. Leitin hélt áfram, m.a. til sænsku kirkjunnar sem lítið gat aðstoðað þar sem ekki lágu fyrir frekari upplýsingar um mögulega eigendur. Það var ekki fyrr en Sveinn ákvað að auglýsa eftir eiganda hringsins á samskiptasíðunni Google + nú í vikunni, fjórum árum eftir að hann fannst, sem allt fór að gerast. Skipti engum togum að leitin fór á flug, um 90 manns um allan heim deildu auglýsingunni hans þegar í stað auk þess sem fjöldi fólks dreifði henni enn víðar.
Aftonbladet tekur málið upp á sína arma
Barst leitin sænska dagblaðinu Aftonbladet til eyrna sem tók málið upp á sína arma. Birti blaðið viðtal við Beggu og Svein, þar sem fram kom að hringurinn góði væri á Íslandi og auglýst var eftir Kerstin og Jan. Að tveimur sólarhringum liðnum höfðu hjónin fundist, en þau búa enn í Svíþjóð og hafa verið gift allar götur síðan 4. júní 1965. Hafði ættfræðingur sem las fréttina á vef blaðsins haft uppi á þeim og látið þau vita að mögulega ættu þau hring á Íslandi. Voru þau að vonum glöð að heyra af hringnum sem að hafði glatast í fríi á sama stað, Tenerife, á Spáni sjö árum áður. Á sínum tíma héldu þau að honum hefði verið stolið af hótelinu þeirra og reiknuðu því ekki með að sjá hann aftur.
Vitað hvar hringurinn er
Ekki hefur enn verið ákveðið hvenær eða hvar hringurinn verður afhentur Kerstin og Jan en Begga og Sveinn eru í sambandi við hjónin. „Við töluðum um að væri gaman að hittast. Annars voru þau ósköp róleg, sögðust hafa verið án hringsins svo lengi að nokkrir dagar til gerðu ekkert til. Núna vissu þau í öllu falli hvar hann væri og hjá heiðarlegu fólki. En dagurinn nálgast - svo það væri gaman ef þau fengju hann í tíma fyrir brúðkaupsafmælið,“ segir Begga að lokum.