„Ferðirnar suður voru til einskis. Skýrslurnar höfðu verið settar í tætarann. Og rökin sem sett höfðu verið fram af alvöruþunga þess fólks sem við á að búa höfðu greinilega ekki verið virt viðlits.“ Þetta segir Einar Kristinn Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um umfjöllun atvinnuveganefndar Alþingis um fiskveiðifrumvörpin.
Einar skrifar pistil á vefsvæði sitt þar sem hann segir að atvinnuveganefnd hafi haldið um veiðigjaldafrumvarpið og frumvarpið um stjórn fiskveiða átján fundi. Margir þeirra hafi staðið klukkustundum saman og engir undir tveimur tímum.
„Margir þeirra komu um langan veg. Rifu sig upp frá daglegum störfum sínum, lögðu land undir fót, ýmist akandi eða fljúgandi, með ærnum tilkostnaði og kynntu mál sitt með miklum ágætum.“
Einar segir að nefndarmenn hafi spurt gestina um málin, óskað eftir rökstuðningi og kallað eftir viðbótarupplýsingum. „Gestir okkar stóðu örugglega í þeirri trú að hér væri alvara á ferðum. Og vissulega var tilefnið brýnt. Við vorum að ræða nýja heildarlöggjöf um sjávarútvegsmálin; hvorki meira né minna.
Og svo birtust viðbrögð stjórnarmeirihlutans. Tjöldin voru dregin frá. Og þá kom það í ljós, að allt þetta hafði bara verið eitt risastórt „skuespil“. Leikrit. Farsi, þar sem í raun og veru var verið að hafa allt þetta góða fólk að háði og spéi.“
Einar segir breytingatillögur meirihlutans hvorki fugl né fisk. „Þetta er auðvitað helber dónaskapur og lofar ekki góðu um önnur stór mál sem nú er verið að véla um í þinginu og meðal annars á vettvangi atvinnuveganefndar.“