„Hjálmar geta klárlega bjargað lífi fólks“

Kjartan Sverrisson var á leið heim til sín í Mosfellsbænum í gær, miðvikudag, þegar árekstur varð með bifhjóli við Víkurvegsbrú á Vesturlandsveginum.

Betur fór en á horfðist en Kjartan er blár og lemstraður eftir áreksturinn auk þess sem herðablað er brotið. Einnig þurfti að sauma tólf spor í höfuð hans og það þrátt fyrir að hann væri með hjálm á höfði. Miklar umræður um hjálmnotkun hafa skapast á Fésbókinni þangað sem Kjartan sendi mynd af hjálminum eftir slysið, mölbrotnum og blóðugum.

„Ég hugsa að ekki hefði þurft að sauma neitt hefði ég ekki verið með hjálm. Læknarnir, lögreglan og sjúkrafólk sem kom á staðinn, sem reyndar var líka hjólafólk, var sammála um að hefði ég ekki verið verið með hjálm við þessar aðstæður hefði ég verið fluttur beint í líkhúsið en ekki á á slysó,“ sagði Kjartan í samtali við mbl.is nú fyrir stundu.

Mikilvægi hjólahjálma verður seint áréttað nægilega. Í tilfelli Kjartans skipti hjálmurinn sköpum en hann flaug af hjólinu við áreksturinn og lenti á höfðinu. „Hausinn á mér væri sennilega eins og hjálmurinn er núna ef ég hefði ekki verið með hann á hausnum. Hjálmar geta klárlega bjargað lífi fólks,“ sagði Kjartan á fésbókarsíðu sinni í kjölfar slyssins. 

Kjartan jafnar sig nú á meiðslunum. Aðspurður hvort beygur sé í honum að setjast á hjólið á ný sagðist hann ekki myndu hætta að hjóla. „Um leið og ég fæ styrk í höndina fer ég aftur, það er klárt mál. Þetta er frábær leið til að koma sér í og úr vinnu.“

Hjálmur Kjartans eftir slysið, brotinn og blóðugur.
Hjálmur Kjartans eftir slysið, brotinn og blóðugur. Ljósmynd/Kjartan Sverrisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert