Ræði ekki málin í andarteppustíl

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu störf atvinnuveganefndar Alþingis sem hefur fjallað um frumvörp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða og hækkun veiðileyfagjalds. Þingflokksformaður Vinstri grænna bað stjórnarandstöðuna um að ná áttum og ræða málið ekki í andateppustíl.

Í umræðum um störf þingsins sagði Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að þær breytingatillögur sem hefðu komið fram varðandi frumvörpin væru smávægilegar tæknilegar breytingar. Í grundvallaratriðum væri á engan hátt komið til móts við þær umsagnir og athugasemdir sem gerðar hefðu verið við frumvörpin sem hafi komið fram „Við erum í nákvæmlega sömu stöðu og hér í lok mars; að hér liggja fyrir þinginu tvö frumvörp með smávægilegum breytingartillögum sem munu setja sjávarútveg í algjört uppnám um næstu framtíð,“ sagði Tryggvi Þór.

Fóru kolvitlaus inn og komu kolvitlaus út

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir sorglegt að að hafa orðið vitni að því hvernig meirihluti atvinnuveganefndar hafi algjörlega brugðist sínu hlutverki. „Málin sem fóru algjörlega kolvitlaus inn til nefndarinnar, þau koma jafn vitlaus út úr henni, þrátt fyrir að þúsundir manna - hringinn í kringum landið - eru búnir að leggja mikla vinnu við að koma athugasemdum á framfæri. Það er ekkert tekið tillit til þeirra, frú forseti. Það er sorglegt að verða vitni að slíkum vinnubrögðum hér á Alþingi,“ sagði Gunnar Bragi.

Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður VG, benti á að atvinnuveganefnd hefði í gær afgreitt nefndarálit um frumvarp til laga um veiðigjöld. Mikil umræða hefði farið um málið meðal nefndarmanna, en einnig meðal gesta nefndarinnar og umsagnaraðila. Taldi Björn að allgóð lending hefði verið að nást í nefndinni. „Mér fannst stjórnarandstaðan vera allt að því alveg sultuslök, alveg fram á síðustu stundu,“ sagði Björn.

Eins og fjandinn yrði laus

„Svo var eins og fjandinn yrði laus þegar það var opnað á umræður um hitt málið, um stjórn fiskveiða, og lagar fram tillögur - ég undirstrika - lagðar fram tillögur að breytingu til umræðu í nefndinni. Og menn létu eins og himinn og jörð hefðu farist. Fóru þar með miklar ræður og fúkyrðaflaum gagnvart einstaklingum í nefndinni og vinnubrögðum þar,“ sagði Björn.

Hann hvatti stjórnarandstöðunni til að reyna að ná áttum þannig að það „verði meiri jafnvægi í dag til að hægt sé að ræða þessi mikilvægu mál. Þannig að það verði ekki gert í þeim andateppustíl sem virtist ætla að gerast í gær,“ sagði hann ennfremur.

Björn ítrekaði að ekki væri búið að afgreiða málið úr nefndinni og það væri því enn til umræðu. Stjórnarliðar hafi lagt fram sínar tillögur og nú bíði hann eftir að sjá tillögur minnihlutans.

Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður VG.
Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður VG. mbl.is/Ómar
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sést hér fyrir miðri mynd.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sést hér fyrir miðri mynd. mbl.is/Ómar
Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sést hér til hægri við …
Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sést hér til hægri við Sigmund Erni Rúnarsson, þingmann Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert