Óviss hvort hann ætlaði að drepa

mbl.is/Styrmir Kári

„Ég er ekki alveg viss hvort ég ætlaði að drepa einhvern,“ sagði Guðgeir Guðmundsson í héraðsdómi Reykjavíkur í  morgun þegar hann var spurður út í afstöðu til ákæru um að hafa stungið framkvæmdastjóra Lagastoða 5. mars sl.

Guðgeir er ákærður fyrir tilraun til manndráps þegar hann stakk Skúla Eggert Sigurz fimm sinnum. Lágmarksrefsing við slíkri ákæru er fimm ára fangelsi. Guðgeir sagði þegar hann var spurður út í þennan ákærulið að hann hefði hugsað mikið um það sem gerðist, „en ég hef ekkert svar fundið“.

Dómari lét bóka að ákærði teldi að ekki hefði verið um ásetning til manndráps að ræða.

Guðgeir var einnig spurður út í ákærulið sem snýr að Guðna Bergssyni, sem var stunginn tvisvar í lærið.

„Ég bara man ekkert eftir því. Það gæti hafa gerst,“ svaraði Guðgeir.

Dómari lét bóka að ákærði drægi ekki í efa að þetta hefði gerst en myndi ekki eftir atburðinum.

Guðgeir hafnaði bótakröfu sem gerð er í málinu, en Skúli krefst 3 milljóna bótakröfu og Guðni rúmlega 1,1 milljónar.

Guðgeir hefur gengist undir geðrannsókn. Niðurstaða rannsóknarinnar er að Guðgeir sé sakhæfur.

Aðalmeðferð í málinu verður 8. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert