„Þessi dómur Hæstaréttar er auðvitað mikil vonbrigði og vekur furðu,“ segja Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri og Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja. Þeir segja niðurstöðuna þá að menn hafi ekki rétt á því að leita réttar síns fyrir dómstólum á meðan stjórnvald hefur mál til rannsóknar.
Í yfirlýsingu Þorsteins og Kristjáns segir að þrátt fyrir að Samherji hafi hrakið málatilbúnað Seðlabanka Íslands með afar sterkum rökum sé þetta niðurstaðan. „Hæstiréttur segir fullum fetum að brotið hafi verið á rétti Samherja við málsmeðferðina en engu að síður er málinu vísað frá dómi.“
Þá er Ríkisútvarpið gagnrýnt og sagt að rangt hafi farið með niðurstöðuna í fréttum RÚV fyrr í dag. „Það kom ekki á óvart að ríkisfjölmiðillinn sneri fréttum af þessu máli enn eina ferðina á haus. [...] Þar var því haldið fram að forsendur í dómi héraðsdóms þar sem útreikningar Seðlabankans voru gagnrýndir hefðu verið felldar úr gildi. Þetta er rangt og enn stendur óhaggað það sem fram kom í úrskurði héraðsdóms að útreikningarnir eru rangir.“