„Nú lítur þetta þannig út að Bretar og Hollendingar ættu að senda Geir Haarde (já og Alþingi) blómvendi fyrir neyðarlögin sem settu Icesave-innlánin í forgang,“ segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hann telur kröfurnar í máli ESA gegn Íslandi undarlegar þegar búið verður að greiða kröfurnar.
Pétur tjáir sig um málið á samskiptavefnum Facebook. Hann segir Icesave-málið hjá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, aðeins snúast um vextina þegar slitastjórn Landsbankans hefur greitt allar kröfur vegna Icesave. „Ef við töpum málinu sem er frekar ólíklegt. Ef við vinnum endurheimtum við orðspor og fáum lögfræðikostnaðinn endurgreiddan og innlánstryggingasjóður á allt í einu 20 milljarða króna. Allt er þetta nú orðið lítilmótlegt miðað við Svavarssamninginn illræmda.“